Júlímánuður þessa árs var heitasti mánuður á heimsvísu frá upphafi mælinga. Þetta staðfesta gögn úr gervihnöttum.
Er þetta niðurstaða loftslagsstofnunar Evrópusambandsins (Copernicus). Segja vísindamenn að þetta varpi skýru ljósi á þá staðreynd að mannkynið sé að upplifa fordæmalausa hlýnun jarðar.
Hvert hitametið féll á fætur öðru víða um Evrópu í steikjandi hitabylgjum í júlí og þá hefur hitastigið á norðurheimskautinu einnig verið óvenjulega hátt í sumar.
Júlímánuður árið 2019 var 0,04 gráðum heitari en júlí 2016, sem var áður hlýjasti mánuður frá upphafi.
Þó kemur fram á vef BBC að árið 2016 hafi meðalhiti verið óvenjulega hár ekki einungis sökum hlýnunar jarðar heldur einnig áhrifa El Niño.
Samkvæmt Copernicus hefur hver mánuður á þessu ári, verið á meðal fjögurra heitustu mánaða sem um ræðir frá upphafi mælinga.
Þó að vísindamenn segist ekki geta fundið beina tengingu á milli hás hitastigs og loftslagsbreytinga er það viðtekið innan vísindasamfélagsins að kolefnislosun af mannavöldum hafi umtalsverð áhrif á hitastig og auki líkurnar á nýjum hitametum.