Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmdi kynþáttafordóma, hatur og hægri öfgastefnu í ávarpi sínu vegna tveggja skotárása í Texas og Ohio um helgina, sem kostuðu 31 manns lífið.
Trump hvatti þá til bættrar heilsugæslu í geðheilbrigðismálum, bættrar byssulöggjafar, dauðarefsingar yfir fjöldamorðingjum og aukins samstarfs þvert á flokkslínur um byssulöggjöfina.
„Geðheilsa og hatur þrýsti á gikkinn, ekki byssan,“ sagði Trump í ávarpi sínu. Lýsti forsetinn ekki yfir stuðningi við herta byssulöggjöf líkt og lagt hefur verið fram í þinginu.
Greint var frá því um helgina að níu hefði farist í skotárás við bar í Dayton í Ohio og 20 hefðu farist í árásinni á Walmart verslunina í El Paso í Texas. Tvö fórnarlömb til viðbótar úr síðarnefndu árásinni létust á sjúkrahúsi í dag og er tala látinna því komin upp í 31.
„Með einni röddu verður þjóð okkar að fordæma kynþáttafordóma, umburðaleysi og hægri öfgastefnu,“ bætti hann við. „Það verður að sigrast á þessum hörmulegu hugmyndafræðistefnum. Það er ekkert rými fyrir hatur í Bandaríkjunum.“
BBC segir Trump hafa látið þessi orð falla skömmu áður en maðurinn sem grunaður er um hryðjuverkin í El Paso, var ákærður fyrir morð.
Forsetinn lýsti þá fjölda stefnumála, m.a. auknu samstarfi milli ríkisstofnanna og samfélagsmiðlafyrirtækja, breytingar á geðheilbrigðislöggjöf, sem og að binda þurfi endi á upphafningu ofbeldis í bandarísku samfélagi.
Kallaði Trump eftir flöggunarkerfi sem myndi heimila lögregluyfirvöldum að taka vopn af einstaklingum sem taldir væru hættulegir sjálfum sér eða öðrum.
Sagði Trump ríkisstofnanir verða að vinna saman að því að bera kennsl á þá sem kunni að fremja ofbeldisverk, hindra aðgengi þeirra að skotvopnum og lagði hann jafnvel til nauðungarvistun sem leið til að stöðva mögulega árásarmenn.
Kvaðst forsetinn einnig hafa komið þeim skilaboðum til dómsmálaráðuneytisins að semja frumvarpsdrög sem kvæðu á um dauðarefsingu til handa þeim sem fremdu hatursglæpi og fjöldamorð.
Þá gagnrýndi Trump netið og „hræðilega“ tölvuleiki fyrir að upphefja ofbeldi. „Það er of auðvelt fyrir þjökuð ungmenni að umlykja sig kúltúr sem fagnar ofbeldi,“ sagði Trump. „Við verðum að stöðva eða verulega draga úr þessu og það verður að byrja strax.“
Trump tók hins vegar ekki á gagnrýni í eigin orðum í garð ólöglegra innflytjenda, sem andstæðingar forsetans hafa sagt átt þátt í að árásum tengdum kynferðisfordómum hefur fjölgað.
Forsetinn hafði hins vegar áður tjáð sig á Twitter og sagði þá þingið eiga að samþykkja löggjöf um bakgrunnsskoðun sem hluta af pakka sem „nauðsynlega þurfi endurbætur vegna innflytjendamála.“
Kvaðst hann vera „opinn og reiðubúinn að ræða allar hugmyndir sem raunverulega virki“ og að repúblikanar og demókratar eigi að taka höndum saman og taka á „þessari plágu“. „Það er ekki hlutverk geðveikra skrímsla, það er okkar að gera það,“ sagði Trump.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem demókratar eru með meirihluta, samþykkti fyrr á þessu ári lagafrumvarp sem kveður á um að bakgrunnskoðun sé gerð vegna kaupa á skotvopnum. Öldungadeild þingsins, þar sem repúblikanar eru með meirihluta, hefur ekki enn tekið frumvarpið fyrir.