Lögregla teymdi svartan mann í reipi

Lögreglumennirnir teymdu Neely á milli sín handjárnaðan í reipi.
Lögreglumennirnir teymdu Neely á milli sín handjárnaðan í reipi.

Lögregluyfirvöld í Texas hafa beðist afsökunar eftir að mynd birtist á samfélagsmiðlum sem sýndi tvo hvíta lögreglumenn á hestbaki teyma svartan mann í handjárnum á milli sín í reipi. Myndin vakti mikla reiði og hefur BBC eftir Vernon Hale, lögreglustjóra Galverston í Texas að þessi aðferð sé vissulega stundum ásættanleg, en að þessu sinni hafi lögreglumennirnir sýnt af sér dómgreindarskort.

Enginn „illska“ hafi lengið þarna að baki, en „stefnu lögreglunnar hafi í kjölfarið verið breytt til að „koma í veg notkun þessarar aðferðar“.

Ófáir samfélagsmiðlanotendur hafa sagt myndina minna mest á þá tíma er þrælahald var löglegt.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Galveston eru lögreglumennirnir, P Brosch  og A Smith, sagðir hafa handtekið Donald Neely fyrir að vera í heimildaleysi inni á einkalóð. Þeir hafi verið verið að flytja Neely á svæði lögreglunnar þegar myndin var tekin. Er ítrekað í yfirlýsingunni að hann hafi ekki verið bundin með reipinu, heldur hafi hann verið í handjárnum og lína svo fest við handjárnin.

„Við skiljum þá neikvæðu mynd sem þessar gjörðir draga fram og teljum mest viðeigandi að hætta notkun þessara aðferðar,“ sagði í yfirlýsingunni. Þá bað lögreglustjórinn Neely afsökunar á „ónauðsynlegri niðurlægingu“.

Lögreglumennirnir hefðu geta beðið á handtökustað eftir bíl.

„Við breyttum samstundis okkar stefnu til að hindra notkun þessarar tækni og munum taka til endurskoðunar alla þjálfun á hestbaki og aðferðir varðandi meira viðeigandi aðferðir,“ sagði Hale.

Neely var látinn laus gegn greiðslu tryggingagjalds að sögn dagblaðsins Houston Chronicle.

Leon Phillips, forstjóri réttindasamtakanna Galveston County Coalition for Justice, sagði í samtali við BBC að sá sem tók myndina, sem fékk mikla dreifingu á samfélagsmiðlum, vilji ekki láta nafns síns getið.

Fyrir sig sjálfan, sem íbúa Galveston, sé atvikið hins vegar nokkuð sem sé erfitt að ræða.

„Þetta voru heimskuleg mistök,“ sagði hann. „Við vitum vel að ef þetta hefði verið hvítur maður þá hefðu þeir ekki gert þetta við hann.“

Hann bætti við að Neely ætti við geðsjúkdóm að stríða og að lögreglumennirnir hefðu átt að bíða eftir lögreglubíl, sama hversu lengi það tæki. „Það er ekki eins og þeir fái greitt fyrir hverja handtöku,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert