Yfirvöld í Venesúela saka Bandaríkjastjórn um „efnahagsleg hryðjuverk“ með því að frysta allar eignir venesúelska ríkisins í Bandaríkjunum. Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði slíkar aðgerðir í morgun ásamt því að banna öll samskipti við stjórnvöld í Venesúela.
Fram kemur í tilkynningu frá Bandaríkjastjórn að ákvörðun Trumps hafi verið tekin vegna þess að Nicolas Maduro, forseti Venesúela, og aðrir tengdir honum hefðu tekið sér völd sem hann hefði ekki sem og mannréttindabrota sem framin hefðu verið. Bandaríkjastjórn hefur ekki gripið til slíkra aðgerða gegn ríkisstjórn á vesturhveli jarðar í rúmlega þrjá áratugi að því er segir í viðskiptablaðinu Wall Street Journal.
Stjórnvöld í Venesúela segir að aðgerðirnar setji viðræður ríkjanna um stjórnmálaástandið í Venesúela út af sporinu. Bandaríkin viðurkenna ekki Maduro sem löglegan forseta en styðja Juan Guaidó, forseta þingsins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem leiðtoga ríkisins til bráðabirgða. Guaidó, sem lýsti sjálfan sig starfandi forseta landsins í upphafi árs, nýtur stuðnings tuga ríkja en ætlunarverk hans, að koma Maduro frá völdum, hefur ekki tekist.
Friðarviðræður fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu Venesúela hófust í Ósló í maí og hafa þær haldið áfram í áföngum á Barbados, án árangurs.
Yfirvöld í Caracas, höfuðborg Venesúela, segja að nýjasta útspil Bandaríkjanna sýni að Bandaríkjastjórn og bandamenn hennar vilji að friðarviðræðurnar mistakist þar sem þau „óttast niðurstöðuna og þann ávinning sem henni kann að fylgja.“ Yfirvöld í Venesúela eru hins vegar staðráðin í að láta aðgerðir Bandaríkjastjórnar ekki hafa áhrif á viðræðurnar.