Meintir mannræningjar Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs sem hvarf sporlaust af heimili sínu í október, fullyrða að hún sé enn á lífi. Mannræningjarnir settu sig í samband við fjölskyldu Hagen í síðasta mánuði og fullyrtu þetta, að því er fram kom á blaðamannafundi sem Svein Holden, lögmaður Hagen-fjölskyldunnar, hélt í Ósló í morgun.
Engin staðfesting hefur borist á málflutningi mannræningjanna, en á fundinum sagði Holden að það kæmi sér á óvart ef lögregla útilokaði enn, miðað við þessar vendingar, að Hagen gæti verið á lífi.
Fyrir helgi greindi norska dagblaðið VG frá því að heimildir blaðsins hermdu að eiginmaðurinn hefði greitt tíu milljónir norskra króna, um 138 milljónir íslenskra, gegn því að fá staðfestingu á að eiginkonan væri á lífi.
Anne-Elisabeth Hagen er gift milljarðamæringnum Tom Hagen og hvarf, sem fyrr segir, sporlaust 31. október af heimili sínu í Fjallhamar í Lørenskógi. Málið var fyrst rannsakað sem mannrán og höfðu óprúttnir aðilar, hinir meintu mannræningjar, sett sig í samband við eiginmanninn til að reyna að svíkja út úr honum lausnargjald. Að ráðleggingu lögreglu varð hann ekki við því.
Í júní greindi lögregla svo frá því að hún teldi að Hagen hefði verið myrt, en vildi ekki tjá sig nánar um hvort einhver hefði verið handtekinn eða væri grunaður um morðið. Bendi allt til þess að mannránið hafi verið sviðsett af morðingja til að fela slóðina.
Athygli vekur að Hagen-fjölskyldan skuli boða til blaðamannafundar nú, en lögregla hefur þegar boðað til fundar klukkan tólf á hádegi, að íslenskum tíma.