Eru að rannsaka fjölda vísbendinga

Töluverðar skemmdir urðu á byggingunni, ekki hvað síst anddyrinu þar …
Töluverðar skemmdir urðu á byggingunni, ekki hvað síst anddyrinu þar sem sprengjunni hafði verið komið fyrir. AFP

Tæknideild lögreglunnar er enn að störfum við aðalskrifstofu dönsku skattstofunnar í Kaupmannahöfn vegna sprengingar sem varð við húsið í gærkvöldi. Danska ríkisútvarpið DR segir lögreglu ekki vilja tilgreina hvernig rannsókn gangi, en fjöldi vísbendinga sé þó til skoðunar.

„Við erum með fjölda vísbendinga sem við erum að rannsaka, en ég get ekki rætt þær frekar á þessum tímapunkti sagði í fréttatilkynningu frá lögreglustjóranum Jørgen Bergen Skov. „Ég vil þó ítreka að þetta er mál sem við tökum mjög alvarlega og er í hæsta forgangsflokki,“ bætti hann við.

Eng­inn slasaðist í sprengingunni sem varð kl. 22.15 að staðartíma og varð sprengingarinnar vart á stórum hluta Østerbro. Einn maður sem var staddur nærri Nordhavn-lestarstöðinni fékk í sig flísar og brot vegna sprengingarinnar og leitaði sér aðhlynningar á slysadeild, en engir aðrir særðust. Tveir voru inni í bygg­ing­unni þegar spreng­ing­in varð og sluppu þeir ómeidd­ir.

DR segir lögreglu í dag hafa fengið fjölda ábendinga frá mögulegum vitnum, en hún auglýsir þó enn eftir vitnum sem kunni að hafa séð eitthvað er þau voru á ferli í nágrenni skattstofunnar stundirnar áður en sprengjan sprakk.

„Við erum mjög þakklát fyrir þetta og það aðstoðar okkur við rannsóknina,“ sagði Skov.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka