Öflug sprenging varð við aðalskrifstofur dönsku skattstofunnar í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Enginn slasaðist en lítið er vitað um hvað olli sprengingunni og hefur danska lögreglan auglýst eftir vitnum að atvikinu.
„Það er of snemmt að segja til um hver ber ábyrgð á sprengingunni,“ segir Jørgen Bergen Skov rannsóknarlögreglumaður. Bráðabirgðalögreglustöð hefur verið komið upp skammt frá skattstofunni þar sem fólk getur gefið sig fram ef það varð vitni að sprengingunni.
Sprengingin varð á ellefta tímanum að staðartíma og stóð rannsókn lögreglu og sprengjusérfræðinga yfir í alla nótt. Stórt svæði við bygginguna var girt af og sprengjuleitarhundar voru sendir á vettvang. Mestar urðu skemmdirnar á anddyri skattstofunnar og dreifðust glerbrot víða um nærliggjandi götur.
Tveir voru inni í byggingunni þegar sprengingin varð en sluppu þeir ómeiddir. Mereta Agergaard skattstjóri kynnti sér aðstæður í morgun og bað hún starfsmenn skattstofunnar að halda sig heima í dag þar sem lögregla er enn að störfum.
Morten Bødskov, skattamálaráðherra Danmerkur, segir í samtali við Ritzau-fréttastofuna að augljóst sé að framhlið byggingarinnar hafi verið sprengd í loft upp af ásettu ráði. „Það er gjörsamlega óásættanlegt,“ segir ráðherrann.
Íbúum á Austurbrú brá verulega við sprenginguna. Ina Christensen, íbúi í hverfinu, segir í samtali við danska ríkisútvarpið að hún hafi haldið í fyrstu að byggingarkrani hefði oltið um koll, svo hár var hvellurinn. „Ég hef aldrei heyrt svona nokkuð áður.“
Sprengingin hefur áhrif á lestarsamgöngur sem liggja niðri milli Østerport og Hellerup.