Ætlaði að skjóta „Mexíkóa“

Myndir úr öryggismyndavél Walmart í El Paso. Patrick Crusius, 21 …
Myndir úr öryggismyndavél Walmart í El Paso. Patrick Crusius, 21 árs, gengur inn með riffilinn að vopni. AFP

Maðurinn sem myrti 22 manneskjur í verslun Walmart í borginni El Paso í Texas játaði í yfirheyrslu hjá lögreglunni að „Mexíkóar“ hafi verið skotmark hans.

Í lögregluskýrslu sem sumir fjölmiðlar hafa fengið í hendurnar er varpað ljósi á handtöku hans og hvað hann sagði við yfirheyrslur.

Í skýrslunni er greint frá því að byssumaðurinn hafi farið út úr bíl sínum með uppréttar hendur og sagt „Ég er árásarmaðurinn“ þegar hann var stöðvaður af lögreglumanni skammt frá vettvangi glæpsins.

Árásin var gerð aðeins nokkrum klukkustunum á undan öðru fjöldamorði í Dayton í Ohio.

Byssumaðurinn, Patrick Crusius, sagðist ekki þurfa á lögfræðingi að halda. Hann sagði lögreglunni að hann hefði ferðast úr úthverfi í Dallas með árásarriffil meðferðis ásamt fjölda byssukúlna.

Áður en hann framdi ódæðið birti hann yfirlýsingu á netinu þar sem kvaðst óttast „innrás fólks af rómönsku bergi brotnu“ í Texas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert