75 ára maður yfirbugaði skyttuna

Allt tiltækt lið lögreglunnar í Ósló fór á vettvang auk …
Allt tiltækt lið lögreglunnar í Ósló fór á vettvang auk fjölda sjúkrabifreiða eftir að neyðarlínu barst tilkynning um skotárás í mosku í Bærum. AFP

Það var hálfáttrætt sóknarbarn al Noor-moskunnar í Bærum, nágrannabæ Óslóar í Noregi, sem stökk á árásarmann vopnaðan mörgum skotvopnum, sneri hann niður í gólf moskunnar og hafði hann þar í föstum tökum þar til vopnað lögreglulið kom á vettvang. Símaverðir neyðarlínunnar í Ósló skildu ekki takmarkaða norsku þess sem tilkynnti um árásina og mátu aðstæður í fyrstu sem svo að ekki væri um neyðarástand að ræða.

„Ég bý við hliðina á moskunni, eitt sóknarbarna okkar stóð þar fyrir utan eftir bænastundina og hringdi í mig. Ég stökk upp í bílinn og mætti á staðinn,“ segir Irfan Mushtaq, forstöðumaður al-Noor-moskunnar í Bærum, í samtali við sjónvarpsrás norska dagblaðsins VG eftir skotárásina sem mbl.is greindi frá síðdegis í dag.

Mushtaq segir aðkomuna hafa verið sláandi, skothylki hafi legið eins og hráviði um allt gólf ásamt glerbrotum, en árásarmaðurinn skaut sér leið inn í moskuna gegnum glugga þar sem öryggismál höfðu verið tekin til endurskoðunar og aðgengi að moskunni stýrt eftir skotárásina í mosku í Christchurch á Nýja-Sjálandi 15. mars þar sem 50 manns létu lífið.

„Ég óttaðist að hann næði að koma sér undan út um bakdyrnar og fór þangað. Þá sá ég hvar eitt sóknarbarna okkar sat alblóðugt ofan á manninum og hélt honum föstum, ég stökk þá til og hjálpaði þar til lögreglan kom,“ segir Mushtaq frá. Hann segir bænastund hafa verið nýafstaðna og imam, leiðtoga moskunnar, nýfarinn þaðan.

Sat og las kóraninn eftir bænastund

„Hann sat og las í kóraninum eftir bænastund í moskunni þegar maðurinn skaut í gegnum rúðuna og ruddist svo inn,“ segir Mushtaq af þeim sem hafði árásarmanninn undir. Sá er 75 ára gamall en vílaði þó ekki fyrir sér að stökkva á mann vopnaðan haglabyssu og að minnsta kosti tveimur skammbyssum.

„Við vitum að þetta er norskur ríkisborgari og hann kemur þarna úr nágrenninu [í Bærum]. Lögregla hefur haft afskipti af honum áður.“ Þetta sagði Rune Skjold, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, á blaðamannafundi sem lögreglan boðaði til nú fyrir klukkustund.

Rune Skjold, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, les yfirlýsingu lögreglunnar …
Rune Skjold, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, les yfirlýsingu lögreglunnar á blaðamannafundi í kvöld. Skjáskot/Bein út­send­ing VGTV

Skjold sagði nokkuð ljóst að maðurinn hefði verið einn að verki en lögreglu væri enn ókunnugt um hvað honum gekk til ætlunar. „Það var ellilífeyrisþegi sem var staddur þarna í moskunni sem hafði hann undir þar til við komum,“ sagði Skjold á fundinum og bætti því við að skyttan væri enn á sjúkrahúsi vegna áverka eftir fundinn við hina öldnu kempu. „Svo fer hann beint í yfirheyrslu,“ sagði Skjold.

Mærði ódæðið á Nýja-Sjálandi

Spurning barst þá frá blaðamönnum á sal um hvort lögregla vissi að árásarmaðurinn hefði lýst velþóknun sinni á árásinni á Nýja-Sjálandi í mars á samfélagsmiðlum skömmu fyrir atlöguna í dag, en um það er norskum fjölmiðlum kunnugt. „Já, hann tjáði sig eitthvað um þetta þar, lögreglan getur hins vegar ekki verið alls staðar á samfélagsmiðlum að fylgjast með fólki, við höfum engan mannskap í það. Við reynum að fylgja því eftir þegar fólk sendir okkur tilkynningar um svona lagað, mikið meira getum við ekki gert,“ svaraði Skjold.

Hann játaði enn fremur að lögregla hefði haft afskipti af árásarmanninum áður. „Við erum núna aðallega að reyna að skapa okkur mynd af því sem gerðist. [...] Tungumálaörðugleikar áttu þátt í því að lögregla mat aðstæður ekki þannig að mannslíf væru í hættu í fyrstu,“ sagði Skjold.

„Við vinnum nú að því að meta það hvort hætta sé á frekari árásum hér í Noregi, enn sem komið er teljum við ekki ástæðu til að ætla það, við lítum svo á að hér sé um einangrað atvik að ræða,“ sagði Skjold enn fremur í viðtali við sjónvarp VG rétt í þessu.

NRK

VG

TV2

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert