Alríkislögregla Bandaríkjanna rannsakar það sem virðist vera sjálfsvíg fjárfestisins og kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá fangelsismálaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins þar vestra.
Epstein fannst án lífsmarks í klefa sínum í Metropolitan betrunarstöðinni í New York í morgun og var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi nokkru síðar.
Yfirlýsingin kemur í kjölfar þeirra spurninga sem vaknað hafa, um hvernig frægum fanga í strangri öryggisvörslu alríkisins, sem þegar hafði samkvæmt ákveðnum heimildum reynt að svipta sig lífi í síðasta mánuði, gæti tekist ætlunarverk sitt í annarri tilraun.
Epstein hafði verið ákærður fyrir skipulagt mansal í vændisskyni, en brotin eiga flest að hafa átt sér stað í glæsihýsum hans á Manhattan og í Flórída á árunum 2002 til 2005. Epstein á að hafa greitt stúlkum stundum nokkur hundruð dali fyrir kynmök, en fram kom í ákæru að yngstu fórnarlömb hans hafi verið allt niður í 14 ára gömul, og hafi honum verið það fullljóst. Hann átti yfir höfði sér allt að 45 ára fangelsi.