Líkfundur í íbúð í Bærum talinn tengjast moskuárás

Lögreglan í Ósló gangsetur sprengjuleitarvélmenni sitt við aðaldyr al-Noor-moskunnar í …
Lögreglan í Ósló gangsetur sprengjuleitarvélmenni sitt við aðaldyr al-Noor-moskunnar í Bærum, nágrannabæ Óslóar, í dag eftir að maður á þrítugsaldri var handtekinn þar í kjölfar skotárásar nú síðdegis. Hálfáttræður maður sem staddur var í moskunni gerði atlögu að árásarmanninum, sem bar mörg skotvopn, hafði hann undir og í tökum þar til lögregla kom á staðinn. AFP

Lögreglan í Ósló tengir líkfund í íbúð í Bærum í kvöld við skotárás á al-Noor-moskuna þar í bæ í dag. Maður á þrítugsaldri er í haldi lögreglu, grunaður um að hafa skotið sér leið gegnum glugga moskunnar og skotið svo á allt sem fyrir varð með mörgum skotvopnum. Hálfáttræður maður, sem nýlokið hafði bænastund í moskunni, réðst á árásarmanninn og hafði hann undir eins og mbl.is greindi frá í kvöld.

„Við fundum látna manneskju í húsi og tengjum hana við málið í Skui [í Bærum] fyrr í dag,“ segir Brian Skotnes í Óslóarlögreglunni við norska ríkisútvarpið NRK rétt í þessu. Lögregla boðar annan blaðamannafund klukkan 23 í kvöld, 21 að íslenskum tíma.

Heimildamaður norska dagblaðsins VG segir að líkið sé af kvenmanni og segir lögregla á Twitter að hún telji andlátið hafa borið að með voveiflegum hætti.

Fréttin verður uppfærð eftir blaðamannafund á lögreglustöðinni í Ósló sem hefst eftir stundarfjórðung.

Uppfært klukkan 21:20:

Allir lögreglumenn í Ósló bera skotvopn í kvöld

„Lögreglan fór í kvöld inn í íbúð þar sem árásarmaðurinn í al-Noor-moskunni er skráður til heimilis. Þar fannst látin manneskja sem lögreglan telur hafa týnt lífi sínu á saknæman hátt og talið er að tengist árásinni á moskuna.“ Þetta sagði Rune Skjold, deild­ar­stjóri rann­sókn­ar­deild­ar lög­regl­unn­ar í Ósló, á blaðamannafundi rétt í þessu, öðrum blaðamannafundinum sem lögreglan boðar til í kvöld.

Skjold til fulltingis var Jan Eirik Thomassen rannsóknarlögreglumaður sem sagði lögregluna nú einbeita sér að því að tryggja öryggi borgarbúa. „Allir lögreglumenn í Ósló bera skotvopn í kvöld,“ sagði Thomassen, en norska lögreglan hefur heimild til að bera og beita skotvopnum þyki aðstæður krefjast þess.

Jan Eirik Thomassen og Rune Skjold greina norskum fjölmiðlum frá …
Jan Eirik Thomassen og Rune Skjold greina norskum fjölmiðlum frá líkfundinum í íbúð í Bærum í kvöld. Þar fannst ung kona látin og tengist hún manni á þrítugsaldri, sem grunaður er um skotárás á al-Noor-moskuna í dag, fjölskylduböndum. Skjáskot/Útsending NRK frá blaðamannafundinum

 

Lögreglan vill ekki tjá sig um áverka á líkinu í íbúðinni né hafa uppi nokkrar vangaveltur um hvernig andlátið bar að höndum. Hún staðfestir hins vegar það sem heimildamaður VG sagði fyrr í kvöld, að um konu sé að ræða, og bætti því enn fremur við að hin látna tengdist grunuðum árásarmanni fjölskylduböndum. 

Telur ódæðismanninn á Nýja-Sjálandi til dýrlinga

Lögregla hefur enn fremur tjáð sig um ummæli grunaða á samfélagmiðlum og sagði fjölmiðlum fyrr í kvöld að maðurinn hefði þar komið fram undir sínu eigin nafni og verið hraðkvæður að mæra nýleg hermdarverk á Nýja-Sjálandi og í El Paso og San Diego í Bandaríkjunum. Mun hann meðal annars hafa kvaðst vera „útvalinn af heilögum Tarrant“, eða Saint Tarrant, og vísar þar til Brenton Tarrant sem skaut 50 manns til bana í mosku í Christchurch á Nýja-Sjálandi 15. mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert