Norður-Kóreumenn hafa skotið tveimur eldflaugum í átt að sjónum, en þetta er fimmta eldflaugaskot ráðamanna þar í landi á örfáum vikum. Flaugunum var skotið á loft frá borginni Hamhung í austurhluta landsins og virðast þau vera viðbrögð við yfirlýsingum Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
BBC greinir frá.
Trump sagði í dag að hann hefði fengið „virkilega fallegt bréf“ frá Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, en að í því hefði komið fram að Kim væri ósáttur með sameiginlegar heræfingar Bandaríkjanna og nágranna Norður-Kóreumanna í suðri.
Norðurkóresk stjórnvöld virðast ekki á þeim buxunum að láta af eldflaugatilraunum sínum, en þau hafa skotið þónokkrum flaugum á loft eftir fund Kim og Trump í júní þar sem leiðtogarnir féllust á að hefja á ný viðræður um afkjarnorkuvopnun Norður-Kóreu.
Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag sagði Trump að bréfið, sem hann hefði fengið frá Kim, væri virkilega fallegt og „frábært frá upphafi til enda“. Í því kom meðal annars fram að Norður-Kóreumenn væru ósáttir við sameiginlegar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, og að þær ógnuðu samningum sem Norður-Kóreumenn hefðu gert við ríkin tvö.
Æfingarnar Bandaríkjahers og Suður-Kóreumanna hefjast af alvöru 11. ágúst, en lágstemmdur undirbúningur er hafinn.