Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og borgarstjóri New York krefjast þess að andlát fjárfestisins Jeffrey Epstein, verði rannsakað í þaula, auk þess sem Bandaríkjaforseti endurtísti samsæriskenningu um að Clinton-hjónin ættu þátt í dauða hans.
Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagðist hafa verið brugðið vegna dauða Epstein og vill að allar kringumstæður verði rannsakaðar. „Dauði Epstein vekur upp alvarlegar spurningar sem þarf að svara,“ sagði Barr, að því er BBC greindi frá.
Epstein, sem var sakaður um að hafa skipulagt mansal, lést í fangaklefa sínum í gær. Talið er að hann hafi framið sjálfsvíg. Í síðasta mánuði fannst hann meðvitundarlaus í klefa sínum og var þá talið að hann hefði reynt að fremja sjálfsvíg.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York, vill einnig að gripið verði í taumana og sagði málin „alltof auðveld“ í tengslum við dauða Epstein. „Það sem margir vilja vita er, hvað vissi hann?“ sagði de Blasio, sem sækist eftir tilnefningu demókrata sem næsti forseti Bandaríkjanna. „Hversu margir aðrir milljónamæringar og milljarðamæringar voru hluti af ólöglega athæfinu sem hann tók þátt í? Þær upplýsingar hurfu ekki með dauða Jeffrey Epstein. Það þarf að rannsaka líka,“ sagði de Blasio.
„Hvernig í ósköpunum var hann ekki undir sérstöku eftirliti? Hvað er í raun og veru í gangi hérna? Ég tel að þeirri spurningu þurfi að svara,“ bætti hann við.
Epstein, sem var 66 ára, lýsti yfir sakleysi sínu í síðasta mánuði og var í gæsluvarðhaldi án möguleika á lausn gegn tryggingafé.
Hann lést á sama tíma og hundruð dómsskjala voru birt með nýjum ásökunum gegn honum og samverkamönnum hans.
Í bréfi til dómasmálaráðherra skrifaði þingmaður repúblikana, Ben Sasse að „hausar verði að fjúka“. „Dómsmálaráðuneytið brást og í dag halda samverkamenn Jeffrey Epstein að þeir séu mögulega sloppnir.“
Nokkrum klukkustundum eftir að Epsein fannst látinn í klefa sínum endurtísti Trump Bandaríkjaforseti færslu frá grínistanum Terrence Williams sem tengdi Clinton-hjónin við dauða Epstein. Þar kemur fram að Epstein „hafði upplýsingar um Bill Clinton og núna er hann dáinn,“ skrifaði Williams, sem er stuðningsmaður Trump.
Í tveggja mínútna myndskeiði sagði Williams að „af einhverjum skrítnum ástæðum deyr fólk sem hefur uppýsingar um Clinton-hjónin“.
Í umfjöllun New York Times kemur fram að engin sönnunargögn séu á bak við ummæli Williams sem eigi rætur sínar að rekja til tilhæfulausra vangaveltna frá öfgamönnum til hægri, allt frá því er Bill Clinton var Bandaríkjaforseti, um að fjölda dauðsfalla megi rekja til Clinton-hjónanna.