Maðurinn sem lagði moskuskyttuna

Hinn pakistanski Mohamed Rafiq flutti til Noregs fyrir tveimur árum. …
Hinn pakistanski Mohamed Rafiq flutti til Noregs fyrir tveimur árum. Hann segist bara vera þakklátur fyrir að geta hjálpað einhverjum. Maðurinn hægra megin við hann er lögmaður hans og túlkur, Abdul Satar Ali, sem ræddi við mbl.is um atburði gærdagsins. Skjáskot/VGTV

Hinn 65 ára gamli Mohamed Rafiq, sem er á góðri leið með að verða þjóðarhetja í Noregi eftir að hann réðst gegn ungum Norðmanni sem ruddist vopnaður inn í al-Noor-moskuna í Bærum í gær, segist bara vera þakklátur fyrir að geta hjálpað einhverjum. Norskir fjölmiðlar ræddu við pakistanska múslimann Rafiq í dag með aðstoð túlksins Abdul Satar Ali sem einnig er lögmaður Rafiq. Í gær sögðu norskir fjölmiðlar Rafiq 75 ára gamlan, hann er hins vegar 65 ára, að sögn Ali.

„Hann er mjög þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið eftir þennan atburð,“ segir Ali í samtali við mbl.is rétt í þessu. „Hann var bara snöggur og stökk rakleiðis á [árásar]manninn. Skömmu síðar fékk hann hjálp frá [Irf­an] Mus­htaq, forstöðumanni moskunnar,“ segir Ali frá.

Flutti til Noregs fyrir tveimur árum

„Vegna rannsóknarhagsmuna getum við ekki greint frá því sem gerðist í neinum smáatriðum, en auðvitað er honum brugðið og okkur öllum í múslimasamfélaginu hér í Noregi,“ segir hann enn fremur. „Hann flutti hingað til Noregs frá Pakistan fyrir tveimur árum, þess vegna talar hann enn enga norsku,“ segir lögmaðurinn að lokum

Maður, sem situr í haldi lögreglu í Ósló eftir að hafa skotið sér leið inn í al-Noor-moskuna í nágrannabænum Bærum síðdegis í gær, er nú einnig grunaður um að hafa ráðið 17 ára gamla systur sína, ættleidda frá Kína, af dögum, eins og mbl.is greindi frá í dag, en lík hennar fannst á heimili árásarmannsins í gærkvöldi. Lögreglan í Ósló rannsakar skotárásina með þeim formerkjum að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Pål Fredrik Hjort Kraby, lögmaður lögreglunnar í Ósló, segir lögreglu munu krefjast fjögurra vikna gæsluvarðhalds yfir árásarmanninum, sem er 21 árs gamall Norðmaður. „Hann er grunaður um manndráp og tilraun til manndráps og við metum það nú hvort við munum breyta þessum grunsemdum í grun um hryðjuverkaárás [n. terrorhandling],“ segir Kraby við norska dagblaðið VG í dag.

„Óhugnanleg „íslamsfóbía““

Irfan Mustaq, forstöðumaður moskunnar, segir í samtali við Aftenposten í dag að ótti fólks við múhameðstrúarfólk sé óhugnanlegur og notar orðin „skummel islamofobia“. „Við upplifum mikla andúð í garð múslima hvern einasta dag,“ segir hann, „þó er okkar eina ósk sú að byggja upp heildstætt samfélag sem allir geta tilheyrt og upplifað sig örugga,“ segir Mustaq.

Árásarmaðurinn hefur lýst velþóknun sinni á ýmsum fjöldamorðum, svo sem nýlegum atburðum á Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum, að sögn lögreglu, auk þess að mæra þá sem þar myrtu tugi manna. Eins hefur hann lýst stuðningi sínum við norska þjóðernissinnann og landráðamanninn Vidkun Quisling sem þó er fullseint þar sem Quisling var stillt upp frammi fyrir norskri aftökusveit og hann skotinn til bana við Akershus-virkið í Ósló snemma að morgni 24. október 1945.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert