Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Bill Barr, segir alvarlega óreglu hafa verið uppi í Metropolitan fangelsinu í New York þar sem Jeffrey Epstein fannst látinn í fangaklefa sínum og er talinn hafa svipt sig lífi.
Barr segir að sér hafi blöskrað, og að hann hafi í raun snöggreiðst, þegar hann hann komst að því hvernig fangelsinu hefði mistekist að tryggja öryggi fanga sem þar dvelja. Segir hann óregluna í fangelsinu valda miklum áhyggjum og að komist verði til botns í málinu og stjórnendur dregnir til ábyrgðar.
Epstein, sem hafði verið ákærður fyrir mansal, hafði verið tekinn af sjálfsvígsvakt þrátt fyrir að hann hefði gert tilraun til slíks í síðasta mánuði. Þá var hann, þvert á reglur, skilinn einn eftir í fangaklefa sínum, auk þess sem fangaverðir fangelsisins sinntu mikilli yfirvinnu vegna manneklu og var eftirliti því mjög ábótavant.