Létust við að þróa „ný vopn“

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Fimm vísindamenn, sem létu lífið þegar sprenging varð í síðustu viku í herstöð við Hvítahaf, unnu að því að þróa „ný vopn“ að sögn rússneskra yfirvalda.

Fram kemur í frétt AFP að sprengingin hafi orðið á fimmtudaginn í síðustu viku en rússneskir ráðamenn hafi á laugardaginn upplýst að hún hafi tengst kjarnorkurannsóknum en við hana jókst geislavirkni á svæðinu.

Bandarískir sérfræðingar telja að sprengingin gæti tengst tilraunum með nýja eldflaug sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ræddi um fyrr á þessu ári.

Sprengingin er sögð hafa orðið þegar eldur kom upp í eldsneyti við tilraun með eldflaug sem til stóð að skjóta á loft af skotpalli á hafi úti.

Stjórnvöld í Rússlandi segja að besta leiðin til þess að heiðra minningu vísindamannanna sé að halda tilraununum áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert