Forstöðumaður Metropolitan-fangelsisins í New York, þar sem fjárfestirinn og barnaníðingurinn Jeffrey Epstein tók eigið líf í fangaklefa sínum á laugardag, hefur verið leystur tímabundið frá störfum. Þá hafa tveir fangaverðir verið sendir í leyfi.
Kerri Kupec, talskona bandaríska dómsmálaráðuneytisins, segir að verðirnir tveir hafi átt að sinna eftirliti með Epstein en ekki sinnt starfi sínu. Epstein var, þvert á reglur, skilinn einn eftir í fangaklefa sínum, auk þess sem fangaverðir fangelsisins sinntu mikilli yfirvinnu vegna manneklu og var eftirliti því mjög ábótavant.
Kupec segir að til greina komi að grípa til frekari ráðstafana í fangelsinu í ljósi nýliðinna atburða. Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Bill Barr, segir alvarlega óreglu hafa verið uppi fangelsinu.
Epstein, sem hafði verið ákærður fyrir mansal, hafði verið tekinn af sjálfsvígsvakt þrátt fyrir að hann hefði gert tilraun til slíks í síðasta mánuði.
Epstein, sem var 66 ára, var ákærður fyrir að eiga samræði við stúlkur undir lögaldri, fyrir mansal og skipulagningu mansals. Réttarhöld yfir honum áttu ekki að hefjast fyrr en í júní á næsta ári.