Geislavirkni mældist 16 sinnum hærri en vanalega í bænum Severodvinsk, eftir sprengingu sem varð við eldflaugatilraunir í herstöð í nágrenninu í síðustu viku. Rússneska veðurstofan greinir frá þessu.
Fimm vísindamenn við kjarnorkustofnun Rússlands fórust í sprengingunni á Nyonoksa tilraunasvæðinu og staðfesti stofnunin nú í vikubyrjun að þeir hefðu unnið að þróun nýrra vopna.
Auk þeirra fimm sem létust þá slösuðust nokkrir í sprengingunni og voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.
Að sögn Rosgidromet veðurstofunnar mældist geislavirkni mæla í Severodvinsk, sem er um 30 km frá tilraunasvæðinu, allt frá fjórum sinnum upp í 16 sinnum meiri en vanalega. Veðurstofan segir mælingar þó hafa færst í hefðbundið horf á ný innan þriggja tíma. Að sögn AFP sýndi sá mælanna sem mældi hvað mesta geislavirkni 1.78 míkrósívert á klukkustund, sem sé vel umfram hefðbundnar mælingar en þó langt undir hættumörkum.
Rosatom kjarnorkustofnunin segir vísindamennina hafa verið að vinna að því að bæta aflvaka ísótópa eldflaugarinnar og að kraftur sprengingarinnar hafi þeytt þeim af skotpallinum og á haf út.
Bandarískir vopnasérfræðingar hafa tengt atvikið svo nefndri 9M730 Burevestnik kjarnorkuknúinni eldflaug sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti kynnti til sögunnar fyrr á árinu.
Sveitastjórnaryfirvöld í Severodvinsk greindu í síðustu viku frá aukinni geislavirkni á svæðinu, en eyddu svo tilkynningunni og sögðu geislavirkni ekki vera yfir hefðbundnum mörkum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að Bandaríkin væru að „læra mikið“ af sprengingunni og fullyrti því næst að bandaríski herinn byggi yfir „svipaðri, en þó mun þróaðri tækni“.
Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar hefur ekki fengist til að staðfesta að slysið hafi tengst Burevestnik verkefninu. Hann sagði þó rannsóknir og þróun Rússa á kjarnaknúnum flaugum vera „alveg einstaka“ og langt umfram hæfni annarra þjóða.