Danir láta reyna á innflutningsbann

Dönsk stjórnvöld vilja takmarka innflutning matvæla sem hafa verið meðhöndluð …
Dönsk stjórnvöld vilja takmarka innflutning matvæla sem hafa verið meðhöndluð með umdeildu skordýraeitri. Ekki er öruggt að heimilt sé að banna innflutning frá öðrum ESB-ríkjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Mogens Jensen, matvæla- og sjávarútvegsráðherra Danmerkur, hefur skipað dönsku matvælastofnunni að undirbúa bann við innflutning matvæla ef skordýraeitrið klórpyrifos (e. chlorpyrifos) kemur við sögu í framleiðslu ferli þeirra, að því er segir í umfjöllun EU Observer.

Peter Pagh, prófessor í umhverfislögfræði við Kaupmannahafnarháskóla, segir bannið tilgangslaust þar sem aðildarríkjum Evrópusambandsins er ekki heimilt að takmarka innflutning af eigin frumkvæði.

Henrik Dammand Nielsen, forstöðumaður matvælagæðadeildar dönsku matvælastofnunarinnar (Fødevarestyrelsen), segir frá því að dönsk stjórnvöld hafi þegar sent framkvæmdastjórn Evrópusambands fyrirspurn er varðar fyrirætlanir sambandsins um að banna notkun klórpyrifos. Búist er við svari innan fimm til sex vikna.

„Ef við höfum ekki fengið viðbrögð [innan þess tíma], munum við halda áfram að undirbúa innflutningsbann,“ segir Dammand Nielsen.

AFP

Skaðlegt fyrir heilsu manna

Fram kemur í frétt EU Observer að verið sé að meta innan Evrópusambandsins hvort eigi að heimila áframhaldandi notkun eitursins. Jafnframt hafa fleiri aðildarríki þegar bannað notkun þess, en matvæli frá ríkjum þar sem klórpyrifos er hluti af framleiðslukeðjunni geta samt verið flutt til þessara ríkja.

Búist er við því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnin niðurstöðu sína ekki seinna en í desember.

Umræðan í Danmörku kemur í kjölfar yfirlýsingar frá matvælastofnun Evrópusambandsins (EFSA) 2. ágúst um að það sé ekkert neyslumagn klórpyrifoss eða klórpyrifos-meþyls (e. chlorpyrifos-methyl) sem er öruggt fyrir heilsu manna og að efnið geti haft skaðleg áhrif á barn á meðgöngu.

Gildandi heimildir til notkunar efnisins byggðu á rannsóknum sem framkvæmdar voru af framleiðenda þess, Dow Chemicals. En á síðasta ári sýndu nýjar rannsóknir að þær rannsóknir som voru unnar fyrir framleiðandann voru villandi (e. misleading) og var vísað til þess í tilkynningu EFSA.

Beðið er átekta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Beðið er átekta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Takmarkaðar heimildir til banns

Innflutningsbann danskra stjórnvalda mun byggja á löggjöf Evrópusambandsins sem heimilar tímabundin innflutningsbönn ef matvæli eða fóður eru talin skapa verulega hættu fyrir heilsu manna.

Pagh segir hins vegar að slíkt bann geti aðeins verið í gildi tímabundið og að innan tíu virkra daga geta önnur aðildarríki Evrópusambandsins kvartað vegna bannsins.

„Ég myndi segja að það sé nokkuð öruggt að þessari löggjöf getur ekki verið beitt til þess að komast hjá flóknum reglum um skordýraeitur, ef notkun skordýraeitursins hefur verið heimiluð í öðru aðildarríki og reglum um hámarksgildi sé fylgt,“ segir Pagh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert