Lýsti öfgafullum skoðunum á Endchan

Philip Manshaus brosti til ljósmyndara í dómshúsinu í Ósló á …
Philip Manshaus brosti til ljósmyndara í dómshúsinu í Ósló á mánudag. AFP

Phil­ip Mans­haus, sem er grunaður um að myrða stjúp­syst­ur sína og ráðast grár fyr­ir járn­um inn í al-Noor-mosk­una í Bær­um í Noregi á laug­ar­dag­inn, notaði sambærilegt spjallborð til að tjá skoðanir sínar og hryðjuverkamennirnir í Christchurch á Nýja-Sjálandi og í El Paso í Bandaríkjunum sem báðir birtu yfirlýsingar á spjallborðinu 8chan.

Manshaus birti myndir og skrifaði athugasemdir á spjallborðinu EndChan sem er spjallborð sem spratt upp, líkt og 8chan, þegar spjallborðinu 4chan var lokað. Frá þessu er greint í frétt NRK

Reglur á 4chan voru hertar árið 2013 eftir að spjallið á síðunni hafði farið yfir öll velsæmismörk. Þá tók 8chan við en eftir að reglur þar voru hertar, í kjölfar yfirlýsinga hryðjuverkamannsins í El Paso, færðu margir notendur síðunnar sig yfir á EndChan. Einn af stofnendum 8chan hefur um langa hríð reynt að fá núverandi forsvarsmenn síðunnar til að loka henni vegna spjallsins sem þar viðgengst. 

Dáist að Quisling

Áður en Manshaus lét til skarar skríða leitaði hann að vettvangi til að tjá sig á alnetinu. Á EndChan er hægt að tjá sig nafnlaust og án þess að búa til notanda.

Rannsókn á máli Manshaus hefur leitt í ljós að hann aðhyllist öfgahægrisinnuð viðhorf. Hann er gagnrýninn á innflytjendur og hefur lýst yfir aðdáun á Vidkun Quisling, norskum her- og stjórnmálamanni, sem leiddi nasistaholla ríkisstjórn Noregs að nafninu til í seinni heimsstyrjöldinni og Norðmenn tóku af lífi eftir stríðið.

Manshaus skrifaði pistil þar sem hann hyllti hryðjuverkamanninn í Christchurch og fullyrti að áform sín í moskunni væru til þjónustu við manninn í Christchurch sem drap 50 manns. Manshaus reyndi að taka tilræði sitt upp á myndavél sem hann festi á höfuð sitt, að sögn lögreglu, en lenti í tæknilegum vandamálum.

Öfgafull viðhorf í vöggu netmenningar

8chan hefur fengið mikla neikvæða athygli bæði vegna yfirlýsinga hryðjuverkamanna sem þar hafa birst en einnig vegna umræðu sem þar hefur orðið í tengslum við hryðjuverkaárásir og fjöldaslys undanfarin ár. Þrátt fyrir það er staðreyndin sú að 8chan er arftaki 4chan sem er af mörgum talin vagga netmenningar. 

Öfgakennd viðhorf hafa alltaf verið hluti af 4chan en þeim hefur að miklu leyti verið útrýmt. Þó hafa umræðusvæði á 4chan sem ætluð eru fyrir umræður um stjórnmál orðið að gróðrarstíu öfgafullra viðhorfa. Eins og áður sagði tók 8chan við sem vettvangur fyrir öfgafull viðhorf en það virðist vera sem svo að þau finni sér ávallt einhvern vettvang því nú hafa þau flust að einhverju leyti yfir á nýjan vettvang, síðuna Endchan, sem Manshaus nýtti sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert