Thunberg lögð af stað yfir hafið

Thunberg veifar til blaðamanna og stuðningsmanna sinna á bryggjunni í …
Thunberg veifar til blaðamanna og stuðningsmanna sinna á bryggjunni í Plymouth í Englandi í morgun. Nú er farin í hönd tveggja vikna sigling hennar yfir Atlantshafið. AFP

„Ég veit ekki enn hvernig ég mun komast heim,“ segir sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg, sem í morgun lagði úr höfn í Plymouth á Englandi, þaðan sem hún mun næstu tvær vikurnar sigla yfir Atlantshafið til New York til þess að vera viðstödd ýmsa viðburði, meðal annars ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um losun gróðurhúsalofttegunda.

Í samtali við blaðamann AFP-fréttaveitunnar áður en hún hélt úr höfn í morgun sagðist Thunberg vera ein af örfáum í heiminum sem gæti fengið tækifæri til þess að sigla á skútu yfir Atlantshafið og því ákveðið að láta slag standa, en áhöfn 18 metra löngu keppnisskútunnar Malizia II bauð Gretu og föður hennar að fljóta með yfir hafið.

Sem kunnugt er flýgur Thunberg ekki af loftslagsástæðum og því hefur hún ekki enn farið til Vesturheims að bera út boðskap sinn. Ráðgert er að hún hitti og taki þátt í loftslagsmótmælum með ungmennum í Bandaríkjunum áður en hún tekur þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 23. september.

Um borð eru, auk Gretu, þeir Svante Thunberg faðir hennar …
Um borð eru, auk Gretu, þeir Svante Thunberg faðir hennar (t.v.) og skipstjórarnir Pierre Casiraghi og Boris Herrmann. AFP

Í framhaldinu fer Thunberg svo til Kanada, Mexíkó og Síle, þar sem hún mun taka þátt í annarri ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna í desembermánuði. Ekki liggur fyrir hvernig hún mun fara á milli staða, upp og niður Ameríku, og eins og kom fram í upphafi veit hún ekki hvernig hún ætlar að koma sér aftur heim til Svíþjóðar.

Teldi það tímasóun að tala við Trump

Koma tímar, koma ráð. En Greta Thunberg hefur verið nokkuð umdeild vestanhafs. Blaðamaður AFP spurði Gretu hvernig hún ætlaði að bregðast við, ef henni og afdráttarlausum málflutningi hennar, um hætturnar sem steðja að jörðinni og mannkyni öllu ef ekki verður gripið til aðgerða gegn loftslagbreytingum, yrði mótmælt eða illa tekið af efasemdarmönnum um loftslagsvánna í Bandaríkjunum.

„Ég mun bara hunsa þá því ég er bara að grípa til aðgerða og miðla vísindunum, ef þeim líkar það ekki, hvað kemur það mér við?“ sagði Thunberg og bætir við: „Ég hef ekki áhyggjur af viðbrögðunum. Það sem veldur mér áhyggjum er hvort við gerum eitthvað eða ekki, hvort að valdafólk muni bregðast við og grípa til aðgerða af viðeigandi krafti.“

Hún segist ekkert hafa að segja við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS hafði í gær eftir henni að myndi telja það tímasóun að ræða við hann, fengi hún tækifæri til.

„Af hverju ætti ég að eyða tíma í að tala við hann þegar hann er augljóslega ekki að fara að hlusta á mig?“ sagði Greta.

Fólk safnaðist saman við bryggjuna í Plymouth í morgun til …
Fólk safnaðist saman við bryggjuna í Plymouth í morgun til þess að óska Thunberg heillafarar. AFP

Hún segir að viðhorf ungu kynslóðarinnar, sem flykkst hefur til skólamótmæla víða um heim í hennar nafni og hvatt þá sem eldri og valdameiri eru til þess að grípa til róttækra aðgerða í loftslagsmálum, fylli hana bjartsýni.

„Hugarfar margra er að breytast, þrátt fyrir að það sé ekki nægilegt og þrátt fyrir að það gerist ekki nógu hratt, þá er það allavega eitthvað,“ sagði Thunberg áður en hún sigldi af stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert