Krufning á auðkýfingnum og barnaníðingnum Jeffrey Epstein hefur sýnt fram á að hálsliðir hans brotnuðu á mörgum stöðum. Þetta hefur dagblaðið Washington Post eftir tveimur aðilum sem er kunnugt um niðurstöður krufningarinnar.
Þessi staðreynd þykir vekja enn fleiri spurningar, til viðbótar við þær sem þegar hafa vaknað um andlát Epsteins, en hann fannst hangandi án lífsmarks í klefa sínum að morgni laugardagsins 10. ágúst.
Málbeinið svokallaða var einnig brotið, en beinið er nálægt barkakýlinu í hálsi karlmanna. Það getur brotnað þegar fólk fremur sjálfsvíg með því að hengja sig og einkum ef það er eldra, samkvæmt þeim sérfræðingum í réttarlæknisfræði sem Post ræðir við.
Áverkarnir eru þó algengari hjá þeim sem eru kyrktir til dauða.
Yfirréttarmeinafræðingur New York-borgar, Barbara Sampson, segir að andlátsorsök Epsteins sé enn ekki staðfest en embætti hennar sá um krufninguna á sunnudag.
Spurð um áverkana á hálsi níðingsins segir hún í yfirlýsingu að enginn einn þáttur krufningarinnar geti gefið skýra niðurstöðu um hvað átti sér stað.
„Í öllum réttarrannsóknum verður að mynda eina heild úr öllum upplýsingunum til að komast að niðurstöðu um orsök og andlátsins og hvernig það átti sér stað. Allt verður að vera í samræmi; ekki er hægt að skoða neina sérstaka niðurstöðu í tómarúmi.“