Íslendingur yfirbugaður í flugvél

Íslenskur karlmaður á sjötugsaldri var handtekinn í morgun eftir að hann reyndi að brjótast inn í flugstjórnarklefa flugvélar sem var á leið frá Ungverjalandi til Íslands. Flugvélin nauðlenti á Sola-flugvelli í Stavangri í Noregi. Talið er að maðurinn hafi verið undir áhrifum.

Farþegar flugvélarinnar yfirbuguðu manninn og lenti vélin á Sola rétt eftir klukkan tíu að staðartíma, að því er fram kemur í umfjöllun ABC Nyheter.

„Við höfum sótt karlkyns farþega á sjötugsaldri. Enginn hefur hlotið meiðsl. Við erum að vinna að því að upplýsa hvað það er sem hefur átt sér stað,“ segir lögreglan á Twitter.

Fram kemur í Stavanger Aftenblad að um sé að ræða flugvél Wizz air sem var á leið frá Búdapest til Keflavíkurflugvallar. Vélinni var snúið við yfir Norðursjó og stefnt í átt að Stavangri. Bæði slökkvilið og lögregla voru kölluð út til þess að taka á móti vélinni.

Vélinni var lent í Stavangri eftir að maðurinn reyndi að …
Vélinni var lent í Stavangri eftir að maðurinn reyndi að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefann. Kort/Flightradar24

Segist ekki muna eftir atvikinu

„Við mátum skilaboðin ekki mjög alvarleg. Orðið flugrán var ekki notað,“ segir Victoria Hillveg, aðgerðastjóri lögreglunnar í Stavangri. „Okkar skilningur er að þetta hafi verið einstaklingur undir áhrifum sem reyndi að komast inn í flugstjórnarklefann og að hann hafi verið afgreiddur fljótt.“

Lögreglan sagði frá því á blaðamannafundi klukkan 11:45 að staðartíma að maðurinn segðist hafa tekið lyf og muni ekki eftir atvikinu. Hann mun verða skoðaður af lækni og síðan verður lagt mat á framhaldið.

Anette Sigmundstad, forstjóri Sola-flugvallar, segir í samtali við Stavanger Aftenblad að flugvélinni hafi verið beint strax að flugstöðinni við lendingu. Fljótlega eftir að lögreglan handsamaði manninn hafi flugvélin lagt af stað til Íslands eða klukkan 10:52.

Flugvélin stefnir nú að Íslandi.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert