Ástralski árásarmaðurinn sem varð 51 að bana í tveimur moskum í Christchurch á Nýja-Sjálandi í mars á þessu ári sendi stuðningsmönnum sínum bréf úr fangelsinu og hvatti þá til að grípa til vopna.
Guardian greinir frá og segir árásarmanninn hafa átt í bréfasamskiptum við hvíta hægriöfgamenn, en hann er vistaður í öryggisfangelsi í Auckland.
Segja sérfræðingar að bréf sem hann sendi stuðningsmönnum sínum í byrjun júlí hljómi eins og vopnaákall til hvítra hægriöfgamanna um heim allan. Bréfið var svo birt á spjallsíðunni 4chan, sem orðin er alræmdur staður fyrir hvíta hægriöfgamenn til að viðra skoðanir sínar.
Nýsjálensk lög heimila föngum að standa í bréfasamskiptum sem fangelsisyfirvöldum er ekki heimilt að takmarka nema við sérstakar aðstæður.
Ráðherrar nýsjálensku ríkisstjórnarinnar segja bréf árásarmannsins hins vegar aldrei hafa átt að vera send úr fangelsinu. „Við höfum aldrei þurft að hafa eftirlit með fanga eins og þessum áður og ég hef varpað fram þeirri spurningu hvort núverandi löggjöf henti þessum tilgangi,“ sagði fangelsismálaráðherrann Kelvin Davis. Kvaðst hann jafnframt hafa óskað eftir ráðleggingum um hvaða breytingar þurfi að gera.
Faisal Sayed, sem er í forsvari fyrir Linwood-moskuna þar sem sjö létu lífið, sagði fréttir af bréfinu vekja skelfingu. „Þetta er virkilega skelfilegt og satt best að segja erum við í áfalli. Þetta er ótrúlegt. Ættu ekki sérstakar aðstæður að eiga við um hann í fangelsinu?“
Talsmaður fangelsismálastofnunarinnar segir breytingar nú hafa verið gerðar á því hvernig póstur árásarmannsins er meðhöndlaður. „Eftir á að hyggja hefði þetta bréf átt að vera haldlagt,“ sagði hann.
Árásarmaðurinn, sem er yfirlýstur hægriöfgamaður, bíður þess nú að dómsmál hans hefjist, en hann hefur verið ákærður fyrir morð á 51 og hryðjuverkaárás. Hann hafnar ákærunum.