Norska lögreglan vinnur nú út frá tveimur kenningum um það hvers vegna maðurinn, sem réðst vopnaður inn í mosku í bænum Bærum á laugardag, myrti stjúpsystur sína.
Árásarmaðurinn, sem hefur til þessa neitað að ræða við lögreglu, hefur nú skipt um skoðun að því er NRK hefur eftir verjanda hans Unni Fries. Segir hún hann nú óska þess að útskýra gjörðir sínar fyrir lögreglu og hún hafi verið í sambandi við hana vegna þessa.
Pål-Fredrik Hjort Kraby, lögfræðingur lögreglunnar í Ósló, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, að önnur kenningin sé sú að stjúpsystirin, Zhangjia Ihle-Hansen sem var af kínverskum ættum, hafi komist að því hvað hann var að undirbúa. Hún hafi mögulega reynt að stöðva árásarmanninn og goldið fyrir með lífi sínu.
„Hin mögulega ástæðan er reiði árásarmannsins,“ sagði Kraby. Systirin fannst látinn á heimili árásarmannsins eftir að hann hafði verið handtekinn eftir að hafa skotið sér leið gegnum glugga moskunnar og skotið svo á allt sem fyrir varð með mörgum skotvopnum. Hálfsjötugur maður, sem hafði nýlokið bænastund í moskunni, réðst á árásarmanninn og hafði hann undir.
NRK segir byssumanninn hafa tilheyrt skotklúbbi og lögregla hafi staðfest það. „Við vitum að margir skotklúbbar veita félögum sínum aðgang að skotvopnum sem þeir geta notað við æfingu og við skoðum það,“ sagði Kraby.
Arild Groven, formaður norsku skotvopnasamtakanna Norges Skytterforbund, staðfesti við norska Verdens Gang-dagblaðið að maðurinn hafi verið félagi í skotklúbbi á Óslóarsvæðinu.
„Það er hræðilegt að frétta að hann hafi verið félagi í skotklúbbi. Hann hefur verið félagi í Stor-Oslo Skyteklubb frá 2018, en það er alveg ljóst að hann hefur ekki haft aðgang að vopni þar,“ sagði Groven.
Norska lögreglan greindi frá því á miðvikudag að um 50 lögreglumenn vinni nú að rannsókn á tilræðinu við moskuna í Bærum, en áður hefur verið greint frá því að málið sé rannsakað sem hryðjuverk. „Við höfum frá því á laugardag, unnið næstum allan sólarhringinn að þessu máli,“ sagði Kraby.
Dómari við Héraðsdóm Óslóar (n. Oslo tingrett) úrskurðaði í vikubyrjun að hann skyldi sæta fjögurra vikna gæsluvarðhaldi, þar af tvær vikur í einangrun. Árásarmaðurinn neitar hins vegar sök.