Breskir kjósendur vilja frekar að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án þess að samið verði um það við sambandið en að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði forsætisráðherra og haldi nýtt þjóðaratkvæði um fyrirhugaða útgöngu.
Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov framkvæmdi og fjallað er um á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þar segir að 48% vilji frekar yfirgefa Evrópusambandið á samnings en að Corbyn komist til valda og standi að útgöngunni með sínum hætti en 35% eru hins vegar hlynnt því.
Fram kemur í fréttinni að niðurstöðurnar komi ekki vel út fyrir stjórnarandstöðuna í breska þinginu sem vilji koma ríkisstjórn Boris Johnson forsætisráðherra frá völdum með því að leggja fram vantrauststillögu gegn honum. Takist það hefur Corbyn sagt að hann sé reiðubúinn að gegna embætti forsætisráðherra tímabundið fram að nýjum þingkosningum.