Gleðistund í brúðkaupi varð á svipstundu að þeim verstu hörmungum sem hægt er að ímynda sér, er sjálfsvígsárás var framin í Kabúl höfuðborg Afganistans í gærkvöldi. Að minnsta kosti 63 eru látnir. Brúðguminn ræðir við afganska fjölmiðla í dag.
„Fjölskylda mín og eiginkona mín eru í áfalli, þau geta ekki einu sinni talað. Það líður sífellt yfir konuna mína,“ segir brúðguminn, sem heitir Mirwais, í samtali við Tolo News í Kabúl.
„Ég missti bróður minn, ég missti vini, ég missti ættingja. Ég mun aldrei sjá glaðan dag framar,“ segir brúðguminn, í öngum sínum sem von er.
Nasrat Rahimi talsmaður innanríkisráðuneytis Afganistans segir fjölmiðlum að sextíu og þrír séu þegar látnir. Þeir verða eflaust fleiri, þar sem 182 eru sárir, margir alvarlega. „Á meðal þeirra særðu eru konur og börn,“ segir Rahimi.
„Það voru allir að dansa og njóta sín þegar sprengingin átti sér stað,“ segir Munir Ahmad, tuttugu og þriggja ára veislugestur sem særðist alvarlega í árásinni. Hann lýsir því í samtali við fréttamann AFP í sjúkrarúmi sínu að það hafi verið algjört uppnám og öngþveiti eftir sprenginguna. „Allir öskruðu og grétu af ótta um ástvini sína,“ segir hann.
Í frétt AFP kemur fram að afgönsk brúðkaup séu miklar hátíðir, gjarnan sótt af hundruðum ef ekki þúsundum gesta. Einn gestur í þessu brúðkaupi sagði að gestirnir hefðu verið um 1.200 talsins. Oftast skemmta karlar og konur sér í sitt hvoru lagi. Árásin í gær átti sér stað í karlasalnum.
Talíbanar hafa samkvæmt frétt BBC neitað því að bera ábyrgð á árásinni, sem Ashraf Ghani forseti landsins hefur kallað „villimannslega“. Forsetinn segir sömuleiðis að talíbanar geti ekki firrt sig ábyrgð á ódæðinu, þar sem þeir veiti hryðjuverkamönnum vettvang.