Mega ferðast til útlanda án samþykkis

Kona frá Sádi-Arabíu á gangi um Jeddah-flugvöllinn í landinu.
Kona frá Sádi-Arabíu á gangi um Jeddah-flugvöllinn í landinu. AFP

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hófu í dag innleiðingu nýrrar reglugerðar um að konur eldri en 21 árs geti fengið vegabréf og ferðast til annarra landa án sérstaks leyfis frá karlkyns „forráðamanni”.

Með þessum nýju reglum, sem tilkynnt var um fyrr í þessum mánuði, verða slíkir „forráðamenn” valdaminni en áður. Þetta kerfi hefur verið táknrænt fyrir undirokun kvenna í landinu.

„Vegabréfadeildin er byrjuð að fá umsóknir frá konum 21 árs og eldri um að gefa út eða endurnýja vegabréf og ferðast annars staðar en um konungsdæmið án leyfis,” sagði í tilkynningu frá deildinni á Twitter.

AFP

Konur í Sádi-Arabíu  hafa lengi þurfti leyfi karlkyns „forráðamanna”, þ.e. eiginmanna, feðra eða annarra karlkyns skyldmenna, vegna þessa.

Ráðist var í umbæturnar eftir að mikla athygli vakti þegar konur reyndu að komast hjá meintri misbeitingu „forráðamanna” á valdi sínu yfir þeim þrátt fyrir að krónprinsinn Mohammed bin Salman hafi aukið réttindi kvenna að undanförnu, meðal annars með því að leyfa þeim að keyra bíl.

Kona frá Sádi-Arabíu smellir af sjálfu á fótboltaleik í landinu.
Kona frá Sádi-Arabíu smellir af sjálfu á fótboltaleik í landinu. AFP

Fyrr í þessum mánuði greindu stjórnvöld einnig frá því að konur í Sádi-Arabíu mættu í fyrsta sinn skrásetja opinberlega fæðingar, hjónabönd og skilnaði, auk þess sem þær skyldu viðurkenndar sem forráðamenn barna sem eru undir lögaldri, rétt eins og karlar.

Kona frá Sádi-Arabíu lærir á bíl.
Kona frá Sádi-Arabíu lærir á bíl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert