Angela Merkel, kanslari Þýskalands, vonast til að nýtt samkomulag um brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, geti náðst innan þrjátíu daga.
Nýja samkomulagið myndi fela í sér aðra lausn en þá sem lögð hefur verið fram varðandi landamæri Norður-Írlands og Írlands.
„Kannski getum við gert þetta innan þrjátíu daga, hvers vegna ekki?” sagði Merkel á blaðamannafundi í Berlín með breska forsætisráðherranum Boris Johnson.
Johnson kvaðst vera „meira en ánægður” með þennan „frábæra tímaramma”. Hann fór þess nýlega á leit við Evrópusambandið enn á ný að varnaglinn um landamærin yrði tekinn út úr útgöngusamningnum en þeim óskum hefur ekki verið mætt.
Að öllu óbreyttu fara Bretar út úr Evrópusambandinu 31. október án samnings.