Karlmaður, sem birti myndband af pappalíkneski af Grenfell-turninum brenna á báli á WhatsApp-samfélagsmiðlinum, hefur nú verið sýknaður af ákæru um birtingu á „verulega viðbjóðslegu“ efni. 72 létust í eldsvoðanum.
BBC greinir frá og segir manninn, Paul Bussetti, hafa tekið myndbandið í partíi sem hann var staddur í í suðurhluta London, sem hann birti svo á WhatsApp. Myndbandið rataði í kjölfarið á YouTube.
Saksóknari fullyrti að birtingin hefði einkennst af kynþáttahatri, en Busetti hafnaði því og sagði fígúrurnar í gluggum pappalíkneskisins hafa átt að tákna sig og vini sína.
Myndbandið sýndi pappalíkneski af byggingu sem á var ritað Grenfell og var upptakan gerð í partíi að viðstöddum um 30 manns. Sagði Bussetti vin sinn hafa útbúið líkneskið sem hefði átt að vera „brandari um okkur“. Fólkið í turninum hafi átt að vera fólkið sem var statt í partíinu og því hefði öllu fundist þetta „fyndið“. Hann hafi svo deilt upptökunni í tveimur WhatsApp-hópum með um 20 manns og hafi ekki ætlað að láta það fara víðar.
Dómstóll sýknaði hann í dag af ákærunni, en myndbandið vakti mikla reiði á samfélagsmiðlum og sagði ættingi eins þeirra 72 sem létust í eldsvoðanum 14. júní 2017 myndbandið vera „viðbjóðslegt“.