Milljarðamæringurinn David Koch er látinn, 79 ára að aldri, en frá þessu greindi eldri bróðir hans, Charles Koch, í fréttatilkynningu í dag. Charles nefndi í tilkynningunni að bróðir hans hefði tekist á við krabbamein í blöðruhálskirtli um áratugaskeið, en ekkert var gefið upp um nákvæma dánarorsök.
Koch-bræðurnir hafa verið með ríkustu mönnum í heimi og miklir áhrifamenn í bandarískum stjórnmálum. David, sem nú er látinn, bauð sig fram í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 1980 fyrir Frjálshyggjuflokkinn og kallaði þá eftir því að fjöldi alríkisstofnana yrði lagður niður.
Samkvæmt tímaritinu Forbes var David Koch 11. ríkasti maður veraldar og eignir hans sagðar nema 42,4 milljörðum bandaríkjadala.
Á undanförnum árum hafa bræðurnir gefið repúblikönum mikið fé og talað fyrir því að ríkisbáknið verði minnkað og áhersla verði lögð á viðskiptafrelsi. Þeir hafa verið ósáttir efnahagsstefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sér í lagi hvað varðar tollamál.
David Koch dróg sig út úr rekstri fyrirtækis þeirra bræðra, Koch Industries, í fyrra og var það gert vegna heilsufarsástæðna. Í fréttatilkynningu um andlát Koch segir bróðir hans að David hafi fyrst greinst með blöðruhálskrabbamein fyrir 27 árum síðan og þá hafi læknar talið að hann myndi einungis lifa nokkur ár til viðbótar.
„David sagði oft að frábærir læknar, bestu fáanlegu lyf og hans eigin þrjóska hefðu haldið krabbameininu í skefjum,“ sagði Charles Koch í tilkynningunni og bætti við á þessum tíma hefði David gifst eiginkonu sinni Juliu Fischer og eignast með henni þrjú börn.
Koch-bræðurnir hafa í krafti auðs síns verið áhrifamiklir í stjórnmálum vestanhafs sem áður segir. New York Times segir þá hafa varið að minnsta kosti 100 milljónum dala í stuðning við frambjóðendur sem eru lengst til hægri innan Repúblikanaflokksins á síðustu áratugum.