Sendir herinn til að ráða niðurlögum eldanna

Mikill fjöldi fólks tók þátt í mótmælum í Rio de …
Mikill fjöldi fólks tók þátt í mótmælum í Rio de Janeiro í Brasilíu í dag, þar sem forsetinn var krafinn um aðgerðir til að ráða niðurlögum gróðureldanna. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu hefur skipað brasilíska hernum að aðstoða við að ráða niðurlögum gróðurelda sem nú loga víða í regnskógum Amazon.

BBC segir Bolsonaro hafa undirritað sérstaka forsetatilskipun sem kveði á um hersveitir verði sendar á náttúruverndarsvæði, svæði frumbyggja og svæði í nágrenni landamæra Brasilíu.

Tilkynninguna sendi Bolosonaro frá sér vegna sívaxandi þrýsting frá ráðamönnum í Evrópu. Höfðu bæði Frakkland og Írland til að mynda tilkynnt að þau myndu ekki staðfesta viðskiptasamning við ríki Suður-Ameríku nema Brasilía gripi til aukinna aðgerða til að ráða niðurlögum eldanna.

Þá hvatti Mika Lintilä fjármálaráðherra Finnlands Evrópusambandið til að hugleiða bann við innflutningi á brasilísku nautakjöti.

Umhverfissamtök hafa enn fremur hvatt til mótmæla í borgum Brasilíu í dag til að krefjast aðgerða gegn eldunum. Hundruð mótmælenda söfnuðust líka saman fyrir framan sendiráð Brasilíu víða um heim í dag, m.a. í London, Berlín, Mumbai og París. „Við getum ekki staðið hér og beðið þess að himininn verði líka svartur hér í London,“ hefur BBC eftir Lauru Villares House sem tók þátt í mótmælunum í London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert