Einn helsti gagnrýnandi stjórnvalda í Rússlandi, Alexei Navalní, var látinn laus úr fangelsi í morgun eftir að hafa afplánað 30 daga í fangelsi fyrir að undirbúa mótmælafund. Mótmæli sem hafa orðið að bylgju mótmæla í höfuðborg landsins, Moskvu.
Lögregla var viðstödd þegar hann var látinn laus úr fangelsi í morgun en aðhafðist ekkert ólíkt því sem gert hefur verið þegar aðrir úr stjórnarandstöðunni hafa verið látnir lausir úr haldi undanfarið. Yfirleitt hefur lögreglan handtekið þá fyrir utan fangelsið og fært þá í varðhald að nýju.
Nalvalní ræddi við fjölmiðlafólk fyrir utan fangelsið og gagnrýndi harðlega viðbrögð yfirvalda sem hafa mætt mótmælendum af hörku undanfarnar vikur í Moskvu.
„Hreyfingin mun halda áfram að vaxa og stjórnin mun sjá verulega eftir því sem hún hefur gert,“ segir Navalní.
Hann var handtekinn í Moskvu 24. júlí fyrir utan heimili sitt en hann var á leið út að hlaupa og ætlaði sér að kaupa blóm handa eiginkonu sinni í leiðinni en hún átti afmæli þennan dag.
Navalní er 43 ára gamall lögfræðingur menntaður í Yale. Hann var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að hafa brotið lög sem banna skipulagningu mótmælafunda. Navalní var lagður inn á sjúkrahús meðan á afplánun stóð vegna alvarlegra ofnæmisviðbragða en Navalní segir sjálfur að það hafi jafnvel verið eitrað fyrir honum.
Navalní komst fyrst í heimsfréttirnar fyrir það að standa fyrir mótmælafundum árin 2011 og 2012 gegn endurkomu Pútíns í Kreml. Navalní hlaut næstflest atkvæði í kosningu til borgarstjóra Moskvu árið 2012.