Óttast um heilsuna vegna geislavirkni

Nyonoska-her­stöðin í Arkang­elsk-héraðinu í Rússlandi. Heilbrigðisstarfsmenn á Arkangelsk-sjúkrahúsinu sem tóku …
Nyonoska-her­stöðin í Arkang­elsk-héraðinu í Rússlandi. Heilbrigðisstarfsmenn á Arkangelsk-sjúkrahúsinu sem tóku á móti þeim sem slösuðust í sprengingunni óttast að hafa orðið fyrir geislun. AFP

Rússneskir heilbrigðisstarfsmenn sem sinntu fórnarlömbum sprengingar í herstöð í nágrenni bæjarins Severodvinsk fyrr í þessum mánuði voru ekki í hlífðarfatnaði. Þeir óttast nú að hafa orðið fyrir geislun. 

Fimm vís­inda­menn við kjarn­orku­stofn­un Rúss­lands fór­ust í spreng­ing­unni á Nyonoksa-til­rauna­svæðinu 8. ágúst síðastliðinn. Vísindamennirnir unnu að þróun nýrra vopna. Auk þeirra fimm sem lét­ust slösuðust sex manns í spreng­ing­unni og voru flutt­ir á sjúkra­hús til aðhlynn­ing­ar.

Samkvæmt upplýsingum frá rússnesku veðurstofunni mældist geisla­virkni 16 sinn­um hærri en vana­lega í Severod­vinsk eft­ir spreng­inguna. Geislunin mældist þó ekki það sterk að hún geti haft skaðleg áhrif á heilsu fólks. 

Læknir sem starfar á Arkhangelsk-sjúkrahúsinu, sem tók á móti þremur sem særðust í sprengingunni, segir í samtali við BBC að að minnsta kosti 90 heilbrigðisstarfsmenn meðhöndluðu hina slösuðu en herinn hafi ekki varað við mögulegri geislavirkni. 

Hin þrír sem slösuðust voru fluttir á annað sjúkrahús þar sem er sérútbúin aðstaða til að meðhöndla þá sem hafa orðið fyrir geislun. 

Heilbrigðisstarfsfólkið vill stíga fram núna og greina frá áhyggjum sínum til að koma í veg fyrir að svona nokkuð gerist aftur. „Við viljum ekki að næst verði okkur færðir ekki bara þrír sjúklingar, heldur tíu, Guði forði okkur frá því,“ segir einn starfsmannanna. 

Sjúklingarnir þrír voru fluttir á spítala í Moskvu daginn eftir slysið þar sem sérfræðingar á sviði geislavirkni starfa. Ekki hefur verið gefið upp hvernig líðan þeirra er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert