Sakar Bolsonaro um lygar

„Í ljósi afstöðu Brasilíu undanfarnar vikur getur forsetinn ályktað að …
„Í ljósi afstöðu Brasilíu undanfarnar vikur getur forsetinn ályktað að Bolsonaro forseti hafi logið að honum í Osaka.“ AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti telur að Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hafi logið að honum um stefnu Brasilíu í loftslagsmálum. Því hyggst Macron nú tala gegn viðskiptasamningi Evrópusambandsins og ríkja Suður-Ameríku.

„Í ljósi afstöðu Brasilíu undanfarnar vikur getur forsetinn ályktað að Bolsonaro forseti hafi logið að honum í Osaka,“ segir talsmaður Macron, og á við fund G20 ríkjanna sem fram fór í Osaka í Japan í júní.

Talsmaður Macron segir að ummæli sem brasilískir ráðamenn hafi látið falla undanfarnar vikur gæfu til kynna að að Bolsonero hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum eða bregðast við ákalli um að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika Amazon-regnskógarins.

„Í þessum aðstæðum mun Frakkland setja sig upp á móti Mercosur [fríverslunarsamningi ESB og Suður-Ameríku].“ 

Macron hefur farið fram á að það sem hann kallar neyðarástand í Amazon verði rætt á fundi leiðtoga G7-ríkjanna. Nú hefur Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tekið undir með Macron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert