Skógareldarnir sem geisa í Amazon-regnskóginum valda heimsbyggðinni miklum áhyggjum og hafa leiðtogar helstu iðnríkja heims tekið málið upp á fundi sínum.
Þá keppist almenningur sem og fræga fólkið við að deila ljósmyndum og myndskeiðum af ástandinu á samfélagsmiðlum, en komið hefur í ljós að mikið af því efni sem er í dreifingu er gamalt og jafnvel ekki frá Amazon-skóginum.
Nú hafa Greenpeace-samtökin hins vegar flogið yfir eldana í Rondônia, svæðinu sem hefur orðið einna verst úti, og hleypt fréttastofu BBC með í för. Í myndskeiðinu hér að neðan er því hægt að sjá hversu slæmt ástandið er í raun og veru.
Fréttaritari BBC í Suður-Ameríku, sem flaug yfir regnskógana með Greenpeace, segist aldrei hafa séð neitt svo átakanlegt í heimsálfunni.