Tvær herflugvélar af gerðinni Hercules C-130 eru notaðar við slökkvistarf á skógareldana sem geisa í Amazon-regnskóginum og varpa yfir þúsundum lítrum af vatni á eldana. Fleiri hundruð nýir eldar hafa brotist út undanfarið í regnskógunum.
Þykkan reykjarmökk lagði yfir borgina í Porto Velho í Rondonia-ríki í Brasilíu í dag. „Þetta versnar með hverju árinu. Á þessu ári hefur reykjarmökkurinn verið hættulegur,“ segir íbúi á fimmtugsaldri í borginni Porto Velho. Eldarnir hafa leikið þetta svæði einna verst. Greenpeace-samtökin flugu yfir svæðið fyrir skemmstu og mynduðu það ásamt blaðamanni frá Breska ríkisútvarpinu.
Að minnsta kosti sjö ríki í Brasilíu, þar á meðal Rondonia-ríki, hafa óskað eftir liðsinni hersins sem er í Amazon við að hefta niðurlögum eldanna. Yfir 43 þúsund hermenn eru á því svæði og eru tiltækir í að berjast við eldana, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum.
Nokkrir tugir slökkviliðsmanna eru á leið til Porto Velho í slökkvistarf. Sergio Moro, dómsmálaráðherra, hefur einnig gefið vilyrði fyrir því að öryggissveit taki á ólöglegri skógareyðingu á svæðinu.
Heimsbyggðin fylgist með skógareldunum og óttast afleiðingar þeirra. Leiðtogar G-7 ríkjanna, sem funda í Frakklandi, hafa samþykkt að aðstoða „sem fyrst“ við að ráða niðurlögum gróðureldanna.