Íran óvænt á fund G7-ríkjanna

Fundur G7-ríkjanna fer nú fram í Frakklandi og mætti utanríkisráðherra …
Fundur G7-ríkjanna fer nú fram í Frakklandi og mætti utanríkisráðherra Írans að beiðni forseta Frakklands. AFP

Javad Zarif , utanríkisráðherra Írans, lenti í dag á flugvellinum í Biarritz í suðvesturhluta Frakklands til þess að sækja leiðtogafund G7-ríkjanna sem nú fer þar fram. Ekki var tilkynnt um komu Zarif fyrir fundinn og er talið að tilraun verði gerð til þess að liðka fyrir samkomulagi vegna kjarnorkuáætlun Írans.

Það var Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem bauð Zarif á fund ríkjanna sjö í þeim tilgangi að draga úr vaxandi spennu milli Írans og Bandaríkjanna. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að utanríkisráðherra Írans muni eiga einkafund með forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.

„Zarif […] er kominn til Biarritz […] til þess að halda áfram viðræðum um aðgerðir forseta Írans og Frakklands,“ kom fram í tísti Abbas Mousavi, talsmanns utanríkisráðuneytisins í Íran. Þá hefur skrifstofa forseta Frakklands einnig staðfest komu Zarif, en tekið var sérstaklega fram að ekki sé gert ráð fyrir fundi Zarif og fulltrúum bandarískra stjórnvalda.

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, bendir á að Trump hafi áður sagt að ef Íran „vill setjast við borðið og semja mun hann ekki setja skilyrði“ fyrir því að Bandaríkin komi að samningaborðinu. Bætti Mnuchin við að hann hafi ekki hug á því að tjá sig frekar um það hverjir væru á fundi G7-ríkjanna.

Funduðu í París fyrir leiðtogafundinn

Macron fundaði með Zarif í París kvöldið fyrir G7-fundinn og hefur forseti Frakklands beitt sér eindregið að undanförnu í þágu þess að koma Bandaríkjunum og Íran að samningaborðinu á nýjan leik. Þá hefur Macron meðal annars hvatt Bandaríkin til þess að draga úr viðskiptaþvingunum, sérstaklega hvað varðar sölu olíu til Kína og Indlands.

Er þetta fyrsta skref í átt að opna viðræður milli fylkinga sem gæti skilað samningi sem myndi takmarka kjarnorkuáætlun Írans. Trump dró Bandaríkin úr fyrri samningi um kjarnorkuáætlun Írans.

G7-ríkin eru Bretland Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan og Bandaríkin. Hópurinn var áður þekktur undir nafninu G8, en Rússum var vísað úr hópnum árið 2014 vegna afskipta af deilum innan Úkraínu og innlimun Krímskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert