Neydd til að drekka skólp

Samantha Kureya varð fyrir óskemmtilegri lífsreynslu í vikunni.
Samantha Kureya varð fyrir óskemmtilegri lífsreynslu í vikunni. Hararelive.com

Þeir ruddust inn til hennar að kvöldi síðasta miðvikudags, þrír grímuklæddir menn, og sögðust vera frá lögreglunni. Þeir löðrungu hana og þvinguðu hana síðan á nærfötunum út og upp í pallbíl sem beið fyrir utan. Þaðan var ekið sem leið lá á stað sem hún bar ekki kennsl á.

Þannig lýsir skemmtikrafturinn og háðsádeiluhöfundurinn Samantha Kureya lífsreynslu sem hún varð fyrir heima í Simbabve í vikunni. Kureya, sem kallar sig Gonyeti, er einn vinsælasti skemmtikraftur landsins og þekkt fyrir beitt spé af pólitískum toga.

Við höfum verið að fylgjast með þér

„Þeir byrjuðu á að segja: „Þú dregur dár að ríkisstjórninni og við höfum verið að fylgjast með þér,““ lýsir hún í breska blaðinu The Guardian. „Þeir skipuðu mér að leggjast niður og velta mér eftir jörðinni. Ég fékk fyrirmæli um að velta mér í aðra áttina og síðan hina og um leið var ég barin. Síðan byrjuðu þeir að traðka á bakinu á mér,“ bætir hin 33 ára gamla Kureya við.

Síðan skipuðu mennirnir henni að gera heræfingar og drekka skólpvatn áður en þeir fóru að spyrjast fyrir um maka hennar, sjónvarpsstöðina sem hún vinnur hjá og kollega hennar. Að því búnu var henni gert að afklæðast og síminn hennar var leystur upp í frumeindir sínar með AK-47 riffli.

„Þeir sögðu: „Ef þú segir frá þessu þá setjum við byssukúlu gegnum höfuðið á móður þinni.“ Maður er ekki óhultur í þessu landi, það er ógnvekjandi. Þegar menn af þessu tagi mæta og nema á brott konu eins og mig er það óhugnanlegt,“ sagði Kureya á fimmtudaginn en hún er í felum eftir atvikið.

Mannréttindasamtök halda því fram að sama bifreið hafi verið notuð í tíu sambærilegum málum undanfarna daga, sex í höfuðborginni Harare og fjórum í Bulawayo.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem höfð eru afskipti af Kureya en hún var handtekin ásamt öðrum háðfugli fyrr á þessu ári eftir að þau komu fram í lögreglubúningum í grínskissu í sjónvarpi.

Fyrstu viðbrögð stjórnvalda við frásögn Kureya voru á þann veg að hún hefði sett mannránið á svið – í þágu grínsins. „Við látum ekki gabba okkur,“ sagði Energy Mutodi aðstoðarupplýsingamálaráðherra.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert