„Ég sagði þetta aldrei“

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir ekkert til í því að hann …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir ekkert til í því að hann hafi beðið heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna að kanna hvort hægt sé að nota kjarnorkusprengjur til að koma í veg fyrir að fellibyljir nái að ströndum Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir það fáránlegt að hann hafi beðið heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna að kanna hvort hægt sé að nota kjarnorkusprengjur til að koma í veg fyrir að fellibyljir nái að ströndum Bandaríkjanna. 

„Ég sagði þetta aldrei. Þetta eru bara fleiri FALSFRÉTTIR!“ sagði Trump í færslu á Twitter í morgun. 

Frétta­vef­ur­inn Ax­i­os greindi frá þessu í gær og vísaði í heimildarmenn sem sátu fund með forsetanum í Hvíta húsinu.

Viðbrögðin hafa hins vegar ekki látið á sér standa, sérstaklega frá vísindamönnum sem eru ekki par hrifnir af hugmyndinni, óháð því hvort hún komi frá forsetanum eða ekki. 

Vísindamenn banda­rísku haf­rann­sókn­ar- og lofts­lags­stofn­un­ar­inn­ar, Nati­onal Oce­anic and At­mospheric Adm­in­istrati­on (NOAA), segja að afleiðingar þess að varpa kjarnorkusprengju inn í miðju fellibyls yrðu gjöreyðandi. 

BBC hefur eftir vísindamönnum NOAA að kjarnorkusprengja gæti haft lítil sem engin áhrif á fellibyl en að geislavirkt ofanfall sprengjunnar geti hæglega dreifst með vindi og borist til nærliggjandi landsvæða. 

Þá sé erfitt að meta hvaða stormar umbreytist í fellibyli. Um 80 stormar myndast á Atlantshafi á tímabilinu sem nær frá 1. júní til nóvemberloka en aðeins um fimm þeirra verða að fellibyljum. Því er engin leið til að meta hvaða stormar verði að fellibyljum að sögn NOAA. 

Líflegar umræður hafa einnig skapast á Twitter undir myllumerkinu #ThatsHowTheApocalypseStarted, eða í lauslegri þýðingu: Þannig byrjaði heimsendirinn.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert