Gert að greiða 572 milljónir dollara

Bandaríska fyrirtækinu Johnson & Johnson hefur verið gert að greiða …
Bandaríska fyrirtækinu Johnson & Johnson hefur verið gert að greiða risasekt vegna þáttar fyrirtækisins í ópíóíðafaraldrinum í Oklahóma-ríki. AFP

Dómari í Oklahóma-ríki í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu í dag að bandaríska stórfyrirtækinu Johnson & Johnson bæri að greiða ríkinu 572 milljónir dollara (um 71,6 milljarða króna) í bætur fyrir þátt þess í útbreiðslu ópíóíðalyfjafaraldar innan þess.

Fram kemur í frétt AFP að faraldurinn hafi kostað hundruð þúsunda mannslífa vegna ofneyslu ópíóíðalyfja. Dómarinn sagði Johnson & Johnson hafa átt þátt í „almannaplágu“ með blekkjandi kynningu sinni á vanabindandi verkjalyfjum sem innihéldu ópíóíðaefni.

Framganga Johnson & Johnson setti, að sögn dómarans, heilsu og öryggi þúsunda íbúa Oklahóma í hættu. Samkvæmt dómnum skal verja bótafénu í þágu einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga sem orðið hefðu fyrir barðinu á ópíóíðalyfjafaraldinum.

Höfuðstöðvar Johnson & Johnson í borginni New Brunswick í New …
Höfuðstöðvar Johnson & Johnson í borginni New Brunswick í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Saksóknarar höfðu farið fram á 17 milljarða dollara í skaðabætur. Verjendur Johnson & Johnson sögðu að ekki væri gætt sanngirni en hlutdeild fyrirtækisins í markaðinum fyrir ópíóíðalyf væri mjög lítil, bæði í Oklahóma og á landsvísu í Bandaríkjunum.

Dómurinn þykir marka tímamót og hefur verið fylgst náið með málaferlunum en um tvö þúsund hliðstæð mál hafi verið höfðuð gegn tugum lyfjaframleiðendum, heilsölum og smásölum í Bandaríkjunum. Johnson & Johnson hyggst áfrýja dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert