„Ótrúlega dónaleg“ ummæli

Emmanuel Macron (til vinstri) og Jair Bolsonaro í júní síðastliðnum.
Emmanuel Macron (til vinstri) og Jair Bolsonaro í júní síðastliðnum. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur fordæmt „ótrúlega dónaleg” ummæli sem Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hafði uppi um eiginkonu hans Brigitte.

Leiðtogarnir tveir hafa átt í harðvítugum deilum að undanförnu vegna umhverfismála og skógareldanna í Brasilíu.

„Hann hefur haft uppi ótrúlega dónaleg ummæli um eiginkonu mína,” sagði Macron á blaðamannafundi í Biarritz í Frakklandi.  „Hvað get ég sagt? Þetta er dapurlegt. Þetta er fyrst og fremst dapurlegt fyrir hann og fyrir Brasilíumenn.”

Í gær birti stuðningsmaður Bolsonaro færslu á Facebook þar sem hann gerði grín að útliti Brigitte Macron og bar hana saman við brasilísku forsetafrúna Michelle Bolsonaro. „Skiljið þið núna hvers vegna Macron er að ofsækja Bolsonaro?” skrifaði hann við ljósmynd af Brigitte Macron, sem er 65 ára og 28 árum eldri en Michelle Bolsonaro.

Bolsonaro svaraði á Facebook: „Ekki niðurlægja náungann, ha ha”.

Joko Widodo, forseti Indónesíu, ásamt Macron og Bolsonaro á fundinum …
Joko Widodo, forseti Indónesíu, ásamt Macron og Bolsonaro á fundinum í júní. AFP

Skammast sín fyrir forsetann

Macron sagði einnig á blaðamannafundinum að brasilískar konur muni vafalítið skammast sín við að lesa slík ummæli frá forseta sínum. „Ég held að Brasilíumenn, sem eru frábært fólk, skammist sín eflaust fyrir hegðun hans.”

„Á sama tíma og ég finn fyrir vinsemd og virðingu í garð Brasilíumanna vona ég að þeir muni mjög fljótlega eignast forseta sem hegðar sér á réttan máta.”

Fyrir fund G7-ríkja sakaði Macron Bolsonaro um að hafa logið að sér á fundi G20-ríkja í Osaka í júní þegar þeir ræddu saman um loftslagsvandann. 

Brigitte Macron (til vinstri) ásamt Melaniu Trump, forsetafrú Bandaríkjanna.
Brigitte Macron (til vinstri) ásamt Melaniu Trump, forsetafrú Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert