Sveiflur í skógareldum í Amazon frá ári til árs

Eldar loga glatt í Mato Grosso-ríki Brasilíu í gær.
Eldar loga glatt í Mato Grosso-ríki Brasilíu í gær. AFP

Skógareldarnir í Amazon-regnskóginum hafa verið mjög til umfjöllunar fjölmiðla um víða veröld síðustu daga, en um er að ræða mesta fjölda elda sem brunnið hafa í skóginum, hið minnsta innan landamæra Brasilíu, frá árinu 2010, sé miðað við árstíma. Það hefur bandaríska geimferðastofnunin NASA staðfest.

Vísindamenn NASA hafa fylgst með skógareldunum með loftmyndum. Um miðjan mánuðinn kom fram í umfjöllun NASA að fjöldi elda á vatnasvæði Amazon í heild það sem af er ári væri nærri meðaltali síðastliðinna 15 ára, yfir meðaltali á sumum svæðum, til dæmis í Amazonas- og Rondónía-ríkjum, en undir meðaltali í bæði Mato Grosso- og Pará-ríkjum.

Skógareldar eru fátíðir í Amazon-regnskóginum meirihluta ársins sökum votviðris, en í júlí og ágúst verður oftast þurrt og þá kvikna eldar – eða eru kveiktir – þar sem fjöldi fólks sem býr á víðfemu svæðinu notar eld til þess að viðhalda beitarlandi, eða skapa nýtt. Á venjulegu ári ná eldarnir hámarki í september og oftast eru þeir slökknaðir þegar fram í nóvember er komið.

Þurrkum ólíklega um að kenna

Verulegar sveiflur geta þó verið á útbreiðslu eldanna á milli ára. Douglas Morton, sérfræðingur hjá NASA, segir í umfjöllun NASA um eldana að það sem sé sérstakt við brunann í Amazon í þessum mánuði sé það að markverð aukning hafi orðið í stórum, öflugum og þrálátum eldum sem brenni meðfram stórum vegum í Amazon í Brasilíu.

Hann segir jafnframt að þurrkar hafi oft leikið stórt hlutverk þegar mikið brennur í Amazon, en að nú séu tímasetningar og staðsetningar skógarelda meira sennilega frekar tengdir landhreinsun í regnskóginum en staðbundnum þurrkum.

Bolsonero tilbúinn að fá fjárhagsaðstoð

Nýjustu opinberu tölur frá brasilískum yfirvöldum segja að 1.659 nýir eldar hafi kviknað í Brasilíu frá sunnudegi og fram á mánudag og er fjöldi elda því í heildina kominn upp í 82.285 það sem af er ári. Um helmingur þessara elda hafa kviknað eða verið kveiktir á vatnasvæði Amazon.

Jair Bolsonero forseti landsins kvaðst í kvöld reiðubúinn að taka á móti fjárhagsaðstoð frá erlendum ríkjum til þess að takast á við eldana, en lagði áherslu á að féð þyrfti að vera undir stjórn Brasilíumanna.

Áður hafði hann lýst því yfir að hann myndi ekki veita viðtöku þeim 20 milljónum dollara sem leiðtogar G7, sjö helstu iðnríkja heims, ákváðu að veita til slökkvistarfs í Amazon.

Nærri 2.500 hermenn og 15 flugvélar frá brasilíska hernum hafa verið kallaðar út til þess að takast á við eldana, samkvæmt frétt AFP, en tugir þúsunda hermanna til viðbótar eru sagðir til taks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert