Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar í breska þinginu, fundar í dag með leiðtogum annarra stjórnmálaflokka um hvernig koma megi í veg fyrir samningslausa útgöngu úr Evrópusambandinu. BBC segir Corbyn hafa sagt „allar mögulegar aðferðir“ verða ræddar á fundinum.
Sjálfur mun hann gera hvað sem er til að koma í veg fyrir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið samningslaust.
Reuters segir stefna í stjórnarskrárkreppu í Bretlandi og uppgjör við Evrópusambandið, en Boris Johnson forsætisráðherra landsins hefur heitið því að Bretar muni yfirgefa Evrópusambandið eftir 66 daga hvort sem samningar hafa náðst við ESB um útgönguna eða ekki.
Yfirgefi Bretland ESB án samnings jafngildir það hins vegar, að sögn Corbyns, því að Bretland sé komið upp á náð og miskunn Donalds Trump Bandaríkjaforseta og bandarískra stórfyrirtækja.
„Baráttan um að stöðva samningslaust Brexit er ekki barátta milli þeirra sem vilja yfirgefa ESB og þeirra sem vilja vera þar áfram,“ hefur breska dagblaðið Independent eftir Corbyn.
„Þetta er barátta hinna mörgu gegn þeim fáu sem eru að ræna úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að færa þeim sem eru á toppnum jafnvel enn meiri völd og fé. Það er þess vegna sem Verkamannaflokkurinn mun gera allt sem þarf til að stöðva samningslaust bankamanna Brexit,“ sagði Corbyn.