Vill ekki fórna bandarískum auði fyrir loftslagsdrauma

Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með fréttamönnum í Biarritz.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með fréttamönnum í Biarritz. AFP

Fjarvera Donald Trumps Bandaríkjaforseta á þeim fundi leiðtoga G7 ríkjanna í Biarritz í Frakklandi þar sem fjallað var um loftslagsmál vakti athygli. Spurður um loftslagsvána sagði Trump í samtali við Reuters fréttaveituna að bandarískur auður byggi á orku og hann muni ekki stefna honum í hættu fyrir drauma og vindmyllur.

Trump sagði árið 2017 Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál sem Barack Obama forveri hans undirritaði árið 2015. Trump, sem hefur lýst hlýnun jarðar sem „blekkingu“ reyndi þó að draga upp umhverfisvænni mynd af sjálfum sér á fundi með fréttamönnum í lok fundar G7 ríkjanna er hann var spurður um loftslagsmálin.

„Ég tel Bandaríkin búa yfir miklum auði. Sá auður liggur undir fótum okkar. Ég hef vakið þann auð til lífsins,“ sagði Trump og kvað Bandaríkin í dag vera einn stærsta orkuframleiðanda heims og munurinn verði bráðum enn meiri.

„Ég ætla ekki að tapa þeim auði. Ég ætla ekki að tapa honum í drauma, í vindmyllur sem satt best að segja eru ekki að gera sig of vel.“

Stjórn Trumps hefur afnumið fjölmörg stefnumál Obama í umhverfismálum og líkt og áður sagði sat Trump ekki fundinn um umhverfismál, heldur kaus þess í stað að funda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.

Emmanuel Macron reyndi þó að gera lítið úr fjarveru Trumps. „Hann var ekki í herberginu, en teymi hans var hér,“ sagði Macron. „Það ætti ekki að lesa neitt í fjarveru Bandaríkjaforseta ... Bandaríkin eru með okkur varðandi líffræðilegan fjölbreytileika og varðandi Amazon framkvæmdina“.

„Ég er umhverfisverndarsinni“

Reuters segir Trump hafa kallað sig umhverfisverndarsinna á fundi með fréttamönnum. Hann hafi m.a. vakið athygli á að hann hefði fyllt út fjölda yfirlýsinga um umhverfisáhrif vegna verktakafyrirtækis síns.

„Ég vil hreinasta vatn á jörðu. Ég vil hreinasta loft á jörðu og það er það sem við erum að gera,“ sagði Trump.

„Ég er umhverfisverndarsinni, það eru margir sem skilja það ekki. Ég hef skilað fleiri skýrslum um umhverfisáhrif en nokkur sem hefur áður verið forseti og ég tel mig vita meira um umhverfið en flesta.“

Travis Nichols, talsmaður Greenpeace í Bandaríkjunum, gaf lítið fyrir fullyrðingar forsetans. „Gervi umhverfisverndarstefna Trump felur í sér að rústa lögum um dýr í útrýmingarhættu, hneigja sig fyrir mengandi iðnaði og afneita loftslagsbreytingum á meðan að heimurinn brennur,“ sagði Nichols.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert