Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, gagnrýndi Ísland í gær vegna breytinga á lögum um þungunarrof. Segir Duterte að þjóð sem heimili þungunarrof á 22. viku eigi ekkert með að fordæma dráp á Filippseyjum.
Ísland hefur verið ofarlega í huga Duterte frá því það lagði fram ályktun í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um rannsókn á stríðinu gegn fíkniefnum á Filippseyjum.
Duterte sagði í ræðu í Quezon í gær að hann myndi aldrei samþykkja að þungunarrof yrði gert löglegt á Filippseyjum. „En þið ættuð að vita það að á Íslandi heimila þeir þungunarrof fram á sjötta mánuð meðgöngu. Ísland heimilar slátrun fósturs í kviði móður í allt að sex mánuði,“ sagði hann. „Þessir tíkarsynir. Þeir hafa meiri áhyggjur af eiturlyfjabarónum og eiturlyfjasölum sem drepa borgara okkar og lama þjóðfélagið.“
„Ég skil ekki þessa skíthæla. Íslendingar eru svona vegna þess að þeir borða ís. Þeir eru ekki með vatn. Þessir tíkarsynir eru fávitar,“ bætti forsetinn við, samkvæmt frétt sem birt er á vef Yahoo á Filippseyjum í dag.
Sjá nánar hér og hér