„Ríkisstjórnin hefur ekki haft samband, en ef það er rétt sem fram hefur komið [í fjölmiðlum] að hún sækist eftir því að slíta þingfundi, þá er þessi ákvörðun stjórnskipulegt hneyksli,“ segir John Bercow, forseti breska þingsins, í tilkynningu í dag, að því er fram kemur í umfjöllum Guardian.
Tilefni ummæla Bercow er ákvörðun ríkisstjórnar Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, um að biðja Englandsdrottningu um að rjúfa yfirstandandi þingfund (e. prorogue) í september. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur hlotið mikla gagnrýni í dag
„Sama hver umgjörðin er, er augljóst að tilgangur þess að rjúfa þingfund nú er að koma í veg fyrir að þingið geti rætt Brexit,“ kom fram í yfirlýsingu forsetans.
Þingfundur breska þingsins hefur nú staðið í 250 daga og tilkynnti Johnson í bréfi til þingmanna í dag að hann hafi rætt við Elísabetu drottningu um að slíta þingfundi í september og hefja störf að nýju 14. október með stefnuræðu drottningar, í henni er hefðbundið að kynntar eru fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar á nýju þingi.
„Mikilvægur þáttur í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er helsta áherslumál hennar – ef nýr samningur [um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu] berst frá ráðherraráði ESB – að leggja fram frumvarp um útgöngu og vinna að samþykkt þess fyrir 31. október,“ segir Johnson í tilkynningunni.
„Umræður um stefnuræðu drottningarinnar verður tækifæri fyrir þingmenn til þess að kynna skoðanir sínar á fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar. […] Það er rétt að þið ættuð að hafa möguleika til þess að gera það með skýrum og afdráttarlausum hætti.“
Arlene Foster, leiðtogi Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) sem hefur aðild að ríkisstjórn Bretlands, sagði á Twitter í dag að þingfundur hefði ekki staðið lengur síðan árið 1707 og fagnaði því að fá tækifæri til þess að nýr þingfundur verði settur. „Þetta er tækifæri til þess að tryggja að áherslumál okkar séu í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar.“
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar ekki sýnt áformum Johnsons mikinn stuðning í dag. John Mcdonnell, þingmaður Verkamannaflokksins og skuggaráðherra fjármála, tísti að ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri „mjög breskt valdarán“.
„Mér blöskrar glannaskapur ríkisstjórnar Johnsons sem talar um fullveldi og á sama tíma leitar leiða til þess að slíta þingfundi til þess að forðast að fyrirætlanir hennar um samningslaust Brexit verði gagnrýndar. Þetta er hneyksli og ógn gegn lýðræðinu,“ sagði Jeremy Corby, leiðtogi Verkamannaflokksins, í tilkynningu í dag.