Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg sér loks til lands eftir 14 daga velting í Atlantshafinu. Óveður og öldugangur hafa seinkað komu Thunberg til New York, sem áætluð var í gær. Í nótt birti hún mynd á Twitter þar sem sést glitta í ljósið á Manhattan. Thunberg og áhöfnin koma því til hafnar síðar í dag en í síðasta lagi á morgun.
„Þetta fer svolítið eftir vindhraða,“ segir einn úr áhöfninni í samtali við AFP.
„Land!!“ skrifar Thunberg við mynd á Twitter þar sem sést glitta í ljósin á Long Island og New York og gleðin er ósvikin. Í gærkvöldi birti hún einnig mynd af sér þar sem hún tók fram að síðasta kvöldið á kappsiglingarskútunni Malizia II væri upp runnið.
Land!! The lights of Long Island and New York City ahead. pic.twitter.com/OtDyQOWtF5
— Greta Thunberg (@GretaThunberg) August 28, 2019
Thunberg ávarpar ráðstefnugesti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 23. september. Hún flýgur ekki vegna loftmengunar og þegar henni bauðst far með umhverfisvænu kappsiglingarskútunni var hún fljót að grípa tækifærið. Hvernig Thunberg kemst svo aftur heim til Svíþjóðar á enn eftir að koma í ljós, en hún segist sjálf ekki vita hvernig hún ætlar að fara heim.