Elísabet Englandsdrottning hefur samþykkt beiðni Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, að gera hlé á störfum þingsins í september, aðeins nokkrum dögum eftir að neðri málstofa breska þingsins kemur saman að nýju.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar að óska eftir frestun þings hefur hlotið mikla gagnrýni, meðal annars frá John Bercow, forseta breska þingsins, sem segir beiðnina vera stjórnskipulegt hneyksli.
Þingfundur breska þingsins hefur nú staðið í 250 daga og tilkynnti Johnson í bréfi til þingmanna í dag að hann hafi rætt við Elísabetu drottningu um að slíta þingfundi í september og hefja störf að nýju 14. október með stefnuræðu drottningar.
Það hefur nú verið samþykkt og heimilar ríkisstjórninni að fresta þingfundi frá 9. september. Johnson segir ástæðu frestunarinnar vera vegna fjölda lagafrumvarpa sem stjórn hans hyggst leggja fram það sem tekið sé á mörgun mikilvægum málum. Hann þvertekur fyrir að frestunin sé til að koma í veg fyrir umræður um Brexit á þinginu og segir hann stjórnarandstöðuna hafa nægan tíma.
Þetta merkir að þingmenn hafa rétt rúmar tvær vikur til að ræða breytingar á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en að öllu óbreyttu munu Bretar ganga úr ESB án samnings, 31. október.
Fréttin hefur verið uppfærð