Hótuðu að birta myndskeið af aftöku Hagen

Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í …
Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í fyrra. Ekkert hefur spurst til hennar síðan. AFP

Fjölskyldu Anne-Elisabeth Hagen voru settir afarkostir í bréfi sem meintir mannræningjar hennar skildu eftir á heimili fjölskyldunnar í Lørenskógi í Noregi daginn sem síðast sást til Hagen. Hótuðu þeir að myrða Hagen og birta myndskeið af aftökunni á netinu ef þeim bærist ekki rúmur milljarður í lausnargjald í órekjanlegri rafmynt. 

Þetta hefur norski miðillinn VG eftir Tom Hagen, eiginmanni Anne-Elisabeth, en þetta er í fyrsta sinn sem eiginmaður hennar upplýsir um í hverju hótanir mannræningjanna fólust. 

Anne-Elisa­beth Hagen hvarf spor­laust af heim­ili sínu í októ­ber og hef­ur verið leitað síðan. Fyrst var talið að hún hefði verið num­in á brott og heimtuðu meint­ir mann­ræn­ingj­ar lausn­ar­gjald en eiginmaður hennar er einn auðugasti maður Noregs. Í júní var greint frá því að lög­regla teldi ólík­legt að Anna-Elisa­beth væri í raun á lífi. Hún hefði senni­lega verið myrt og mann­ránið sviðsett.

VG hefur heimildir fyrir því að lögregluyfirvöld hafi um tíma óttast að mannræningjarnir myndu láta verða af hótunum sínum og birta myndband af aftökunni. Ef af því verður mun það setja stórhættulegt fordæmi fyrir mannshvörf og hótanir. 

Tommy Brøske, lög­reglu­stjóri í aust­urum­dæmi, vildi ekki tjá sig um hótanir mannræningjanna en segir að hótanir í bréfinu hafi verið teknar alvarlegar alveg frá byrjun.

Tommy Brøske lög­reglu­stjóri í Aust­urum­dæmi norsku lögreglunnar.
Tommy Brøske lög­reglu­stjóri í Aust­urum­dæmi norsku lögreglunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert